Flokkarnir flykkjast á samfélagsmiðla: Brynjar rífur í sig „woke“

Skjáskot úr myndskeiðinu sem Sjálfstæðisflokkurinn deildi á samfélagsmiðlum.
Skjáskot úr myndskeiðinu sem Sjálfstæðisflokkurinn deildi á samfélagsmiðlum. Skjáskot

Brynjar Níelsson rífur í sig pólitíska rétthugsun með afar táknrænum hætti í nýju myndskeiði sem Heimdallur og Sjálfstæðisflokkurinn hafa deilt á Instagram.

Fyrrverandi þingmaðurinn heldur á A4 blaði í anddyri Valhallar, húsi Sjálfstæðisflokksins, sem á stendur „WOKE“, orð sem íhaldssamir nota gjarnan um þá sem hafa tileinkað sér pólitíska rétthugsun.

Brynjar rífur blaðið í tvennt er hann gengur út úr húsnæðinu á meðan lagið Without me með rapparanum Eminem ómar undir. 

„Guess who's back. Back again,“ rappar Eminem er Brynjar gengur með sólgleraugu niður tröppurnar fyrir framan Valhöll eftir að hafa krumpað pappírinn saman og kastað frá sér. 

Lagið og textinn eru eflaust engin tilviljun því Sjálfstæðisflokkurinn tilkynnti í gær framboðslista sína í Reykjavík. Vermir Brynjar þriðja sætið í Reykjavíkurkjördæmi norður og á því möguleika á að komast á þing en hann missti þingsæti sitt í síðustu alþingiskosningum. 

Á þessu kjörtímabili hefur Brynjar gegnt varaþingmennsku og starfi aðstoðarmanns Jóns Gunnarssonar, er hann var dómsmálaráðherra.

Myndskeiðið má sjá hér fyrir neðan:

View this post on Instagram

A post shared by Heimdallur (@heimdallurxd)

Samfélagsmiðlum beitt í kosningabaráttunni

Nú þegar nær dregur þingkosningum hefur meira borið á því að stjórnmálaflokkar deili myndskeiðum á samfélagsmiðlum á borð við Tiktok og Instagram, eflaust í von um að ná til nýrra kjósenda og auka við fylgi sitt. 

Eru myndskeiðin sum hver til að fræða kjósendur á meðan önnur eru eingöngu ætluð til skemmtunar.

Hér má til að mynda sjá myndskeið sem Miðflokkurinn deildi á Tiktok í byrjun mánaðar eftir að fylgi hans tók stökk. Á myndskeiðinu eru Sigmundur Davíð, formaður flokksins, og Bergþór Ólason þingmaður. Telja tvímenningarnir allan þingflokkinn.

Framsókn á Tiktok-lestinni

Hér má sjá myndskeið sem Framsóknarflokkurinn deildi á dögunum eftir að hafa nýlega stofnað Tiktok-reikning.

„Við á leiðinni á Tiktok lestina af því að flokkarnir neyðast víst til þess í dag,“ segir á myndskeiðinu sem sýnir alla ráðherra flokksins á bát. 

Stuð í framboðsmyndatöku

Samfylkingin deildi fyrr í dag myndskeiði sem sýnir á bak við tjöldin í framboðsmyndatöku. Af myndskeiðinu að dæma var mikið hlegið í myndatökunni. 

@samfylkingin Veislan er að hefjast. Viltu vera með okkur? Hlekkur í fyrstu athugasemd 🌹#kosningar #samfylkingin #kosningar2024 #fyrirþig #fyrirþigsíða #stjórnmál ♬ original sound - samfylkingin

Stjórnin er sprungin

Tiktok-reikningur Viðreisnar hefur líka verið mun virkari í aðdraganda kosninganna. Hér má sjá myndskeið þar sem stjórnarslitin eru útskýrð á léttari nótunum. 

„Stjórnin er sprungin og það er drama,“ segir María Rut Kristinsdóttir, oddviti flokksins í Norðvesturkjördæmi, í myndskeiðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert