„Ferlegt að fá ekki meira frá tönninni“

Jón Ingi er hér til vinstri á myndinni.
Jón Ingi er hér til vinstri á myndinni. mbl.is/Karítas

Aðalmeðferð hófst í dag í stóru fíkniefnamáli vegna glæpahóps sem grunaður er um inn­flutn­ing, vörslu, sölu og dreif­ingu fíkni­efna.

Sakborningar málsins eru 15. Þeir voru upprunalega 18 en þrír ákærðu hafa játað sök og hafa mál þeirra því verið skilin frá stóra málinu. Nokkrir sakborninganna hafa játað brot sitt að hluta.

Dómþing fer fram í dómsal 101 og er þéttsetið af átta sakborningum og um 15 verjendum.

Áhorfendur fylgdust með í dómsal 102 á stórum skjá. Nokkrir verjendur sem könnuðu aðstæður áhorfenda sögðu að slíkt hefði aldrei áður verið gert í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Ólöglegar hljóðritanir

Jón Ingi Sveinsson, annar höfuðpauranna í málinu, var fyrstur til að gefa skýrslu fyrir dóminum.

Karl Ingi Vilbergsson saksóknari bar undir hann tengsl við hina átta sakborninganna sem ákærðir eru fyrir fyrsta kafla ákærunnar, þ.e.a.s. stórfellt fíkniefnabrot. Hann sagði flesta vera vini, vinkonur eða kunningja.

Verjendur og sakborningar í málinu.
Verjendur og sakborningar í málinu. mbl.is/Karítas

Þá næst bar Karl Ingi hljóðritanir lögreglu undir hann. Verjandi hans mótmælti því harðlega og sagði gögnin vera ólögleg þar sem þau voru gerð meðan Jón Ingi var erlendis.

Jón Ingi neitaði að svara fyrir hljóðritanirnar þar sem þær voru gerðar í janúar á þessu ári er hann var staddur í Dóminíska lýðveldinu. Þá vildi hann ekki heldur kannast við samskiptin.

Jón Ingi sagði ítrekað að hann ætlaði ekki að ræða samskiptin. Hann hafi verið erlendis og að um ólögleg gögn væri að ræða. „Lögreglan verður að fara eftir lögum líka.”

Íhugaði að flytja til Brasilíu

Samskiptin héldu áfram fram á vorið. Meðal annars er talað um hlutverk sakborninganna í brotastarfseminni og að einn þeirra skuldi Jóni Inga 10 milljónir króna. Sá er sakaður um að hafa ætlað að flytja inn fíkniefni falin í pottum með skemmtiferðaskipti.

Þá var minnst á hinn alræmda Sverri Þór Gunnarsson, betur þekktur sem Sveddi tönn. Hann situr í fangelsi í Brasilíu fyrir fíkniefnalagabrot og var meðal annars tengdur við Stóra kókaínmálið.

Í samtölunum er minnst á að það komi ekki meiri fíkniefna frá Svedda Tönn í bráð. „Það er ferlegt að fá ekki meira frá tönninni, allavega í bili.”

Þá virðist Jón Ingi íhugað að flytja til Brasilíu.

300 þúsund á mánuði

Spurður út í ummæli þar sem segir að starfsemi hópsins sé eins og fyrirtæki sagðist Jón Ingi ekki kannast við þau. 

Ein samskiptin sýna Jón Inga bjóða meðákærða 300 þúsund á mánuði og heyra beint undir hann.

Hann sagðist ekki vita af hverju lögreglan teldi að hann væri maðurinn sem ætti í öllum þessum samskiptum.

„Bitlausir rýtingar“

Jón Ingi játar að hluta annan kafla ákærunnar sem fjallar um fíkniefna- og vopnalagabrot.

Hann neitar að hafa átt fíkniefni sem fundust á heimili hans, það voru nokkur grömm af hassi, kókaíni, maríjúna og tóbaksblönduðu kannabisefni.

Hann játar þó að hafa átt „bitlausa rýtinga“ sem hann sagði hafa verið safngripi.

Að því loknu var skýrslutöku yfir Jóni Inga lokið í bili, en fleiri skýrslur verða teknar yfir honum síðar í vikunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka