Geti þrýst Rússlandi í átt til friðar

Forsætisráðherrar Norðurlandanna og Volodimír Selenskí á blaðamannafundi fyrr í kvöld.
Forsætisráðherrar Norðurlandanna og Volodimír Selenskí á blaðamannafundi fyrr í kvöld. mbl.is/Karítas

Volodímir Selenskí Úkraínuforseti þakkaði Norðurlöndunum fyrir stuðning þeirra við Úkraínu í stríði þeirra gegn Rússlandi á blaðamannafundi fyrr í kvöld þar sem forsætisráðherrar Norðurlandaþjóðanna undirstrikuðu mikilvægi samstarfs þjóðanna og stuðnings við Úkraínu.

Á fundinum stóðu á sviðinu þau Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, Petteri Orpo, forsætisráðherra Finnlands, Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs ásamt þeim Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra og fyrrnefndum Selenskí.

Stuðningur við siguráætlun sem muni færa frið

„Í fyrsta lagi langar mig að þakka ykkur og þjóðum ykkar fyrir stuðning ykkar til Úkraínu og fólksins okkar,“ sagði Selenskí í byrjun ávarps síns á fundinum.

Þá lýsti hann yfir þakklæti til Íslands fyrir að hafa skipulagt Norðurlandaráðsþingið í ár og fyrir skuldbindingu þjóðarinnar um að virða alþjóðalög og þakkaði hann í kjölfarið hverju Norðurlandi fyrir sig fyrir stuðning þeirra við Úkraínu. 

Sagði Selenskí að á fundi í dag hafi hann og ráðherrarnir sammælst um norrænan stuðning við hina svokölluðu Siguráætlun sem Selenskí segir að muni geta þrýst Rússlandi í átt til friðar.

Þá sagði hann það miður að heyra af efasemdum um áætlunina sem hann sagði ekki einungis koma frá Rússum heldur einnig bandamönnum Úkraníu sem væru hikandi við að fara gegn Rússlandi vegna ótta. 

Norðurlöndin væru þó enn ákveðinn og sagði Selenskí það gífurlega mikilvægt fyrir alla Evrópu.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka