Kennarar fara í verkfall á miðnætti

Magnús segir starfskjör til staðar á almenna markaðinum sem sá …
Magnús segir starfskjör til staðar á almenna markaðinum sem sá opinberi fær ekki notið og að skoða verði það. mbl.is/Sigurður Bogi

Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, ítrekar þá kröfu kennara að launakjör þeirra verði sambærileg launakjörum sérfræðinga á almennum markaði. Hann segir fundi samningsnefndar Kennarasambands Íslands (KÍ), ríkisins og sveitarfélaga hafa lokið fyrr í kvöld án árangur. 

Verkfall kennara í níu skólum hefst því á miðnætti. Kennarar í fjórum skólum til viðbótar munu leggja niður störf í nóv­em­ber verði samn­ing­ar ekki í höfn fyrir þann tíma.

Magnús segir að búið sé að boða til vinnufunda á morgun og á miðvikudaginn en eftir á að boða næsta samningafund.

„Við vonum bara að koma honum fljótt á koppinn,“ segir hann.

Úrskurður félagsdóms skýr

Engin formleg kröfugerð hefur komið fram af hálfu KÍ og spurður hvort að það komi ekki spánskt fyrir sjónir að boða til verkfalls án þess að leggja fram formlega kröfugerð vísar Magnús til úrskurðar félagsdóms frá því í síðustu viku:

„Félagsdómur svaraði því mjög skýrt að við lögðum fram kröfugerð í byrjun þessa árs og höfum ítrekað hana gegnum árið. Við reyndar köllum það markmið eða markmið um laun á milli markaða. Dómurinn var mjög skýr en menn virðast vera á þeirri vegferð áfram að tala inn í það þó að dómurinn hafi sagt annað.“

Samtal næstu daga

Magnús ítrekar þá kröfu sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum að laun kennara verði sambærileg sérfræðingum á almennum vinnumarkaðinum eða um eina milljón.

Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar sveitarfélaga, hefur bent á að réttindi opinberra starfsmanna séu ólík réttindum sérfræðinga á almennum markaði.

Nefndi hún meiri veikindarétt kennara, lengri orlofsrétt, og yfirráð yfir eigin vinnutíma og vinnuskilum sem dæmi.

Magnús segir að KÍ óttist ekki samræðuna og að hluti verkefnisins sé að skoða hvort almenni markaðurinn hafi eitthvað umfram kennara í launakjörum:

„Það er hluti samtalsins sem mun fara fram hér á næstu dögum.“

Umræðan komin stutt

Hann segir starfskjör til staðar á almenna markaðinum sem sá opinberi fær ekki notið og að skoða verði það líka.

„Við gætum nefnt sem dæmi hlut eins og launaviðtal sem er í gangi hjá almenna markaðinum en kennarasambandið fær ekki.

Bara sem dæmi, eitt einfalt en þau eru fleiri til.“

Er vilji af ykkar hálfu að semja frá ykkur t.d. veikindadaga í þágu hærri launa?

„Því miður er umræðan ekki komið þangað. Umræðan er enn þá um það hvernig við komust á þann stað að vera sambærileg í launum og þá þarf að finna hlutlæg viðmið og viðmiðunarhópa sem eru sambærilegir sérfræðingum á almennum markaði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert