Skilaboðin eru mikilvæg

Landað úr Dúdda Gísla í Grindavík. Fagur er fiskurinn úr …
Landað úr Dúdda Gísla í Grindavík. Fagur er fiskurinn úr sjónum. mbl.is/Sigurður Bogi

Þótt Grindavík sé breyttur bær er þar þó áfram stunduð útgerð. Nú fyrir helgina var þar verið að landa úr Dúdda Gísla GK, sem eins og sakir standa er eini krókabáturinn sem leggur upp í verstöðinni.

Algengur afli hvers dags er 6-7 tonn; að uppistöðu góður þorskur sem eftirsóttur er til vinnslu.

Dúddi Gísla GK er 29 tonna plastbátur og gerður út af Besa hf. Báturinn er hár og rennilegur; reynist vel og sannarlega þarf sterkbyggðan bát þegar siglt er á móti öldunum við suðurströndina sem geta verið háar og þungar.

„Aflabrögðin núna eru ágætt kropp; fiskur af slóðinni hér skammt fyrir utan. Að landa hér í Grindavík kemur því vel út, fyrir svo utan hve mikilvæg skilaboð felast í því að lífsmark sé við höfnina,“ segir Þórhallur Benónýsson, útgerðarstjóri hjá Besa hf., spurður um gæftir.

„Mannskapurinn fer alla daga á sjó þegar og ef gefur. Stundum er fiskað út af Krýsuvíkurbergi eða farið eitthvað hér suður fyrir Hópsnesið. Aðra daga er farið eitthvað inn á Faxaflóa. Alveg síðan í vor hefur verið lagt upp og landað hér í Grindavík. Frá því bærinn var rýmdur í fyrra og fram á vor höfðum við Sandgerði sem fastan punkt og getum líka alltaf fært okkur þangað, eins og getur þurft þegar austanáttin hér við Grindavík er stíf. Þá er ekkert spennandi sjóveður hér.“

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert