Skýringa á sýkingu að vænta í vikunni

Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir.
Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir segir að vænta megi niðurstöðu síðar í vikunni úr sýnatöku heilbrigðiseftirlitsins á matvælum frá leikskólanum Mánagarði sem gæti verið orsök E.coli smita á meðal leikskólabarna.

11 börn eru inniliggjandi á Barnaspítala Hringsins, þar af þrjú á gjörgæslu, og þá eru 45 börn í virku eftirliti hjá Landspítalanum vegna sýkingarinnar. Alvarlegasti fylgikvilli svona sýkingar er nýrnabilun sem er sérstaklega hættuleg ungum börnum.

Guðrún segir að heilbrigðiseftirlitið skoði matinn og meti hvaða sýni sé hægt að taka úr honum. Það sé síðan samvinna hjá MAST og Matís um rannsóknina og ef finnist einhverjar bakteríur sem passa við E.coli þá þurfi að stofngreina þær sem er þá líka gert með sýnum frá sjúklingum.

Raðgreina sýni 

Það þarf að raðgreina sýni frá fólki og úr matvælum til að vita hvort það sé sami stofn til að vita af eða á hvaðan þetta kemur og þetta ferli tekur sinn tíma. Það gætu legið niðurstöður fyrir um miðja vikuna,“ segir Guðrún við mbl.is.

Hakk er eitt af þeim matvælum sem hefur verið skoðað í tengslum við smitið en Guðrún segir að í hakksósum séu fleiri matvæli eins og grænmeti en vonandi með þeim aðferðum sem er beitt og eru mjög nákvæmar verði hægt að skera úr um hvaðan smitin eru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert