Boðað hefur verið til stjórnarfundar í VR annað kvöld og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, tilkynna stjórninni þar að hann taki sér leyfi frá störfum á meðan kosningabaráttan stendur yfir.
Ragnar Þór, sem skipar fyrsta sæti á lista Flokks fólksins í Reykjavík norður í komandi alþingiskosningum, segir ennfremur að það muni ekki ganga upp að vera í fullu starfi á tveimur stöðum, nái hann kjöri.
„Ef ég næ kjöri inn á þing, þá verð ég bara að sjá til hvað gerist ef það gerist, en það hefur ekki staðið til að vera í fullu starfi á tveimur stöðum. Það gengur augljóslega ekki upp,“ segir hann í samtali við mbl.is
Ragnar sagði þegar hann tilkynnti framboðið að það kæmi ekki til með að hafa áhrif á störf hans sem formaður VR og að hann hygðist sinna störfum sem formaður í kosningabaráttunni.
Elvar Hrönn Hjartardóttir stjórnmálafræðingur laut í lægra haldi fyrir Ragnari í kosningum til formanns VR í fyrra. Hún gagnrýndi Ragnar fyrir ákvörðun sína og sagði hann „teygja anga sína“.
Vilhjálmur Árnason, ritari og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sakaði Ragnar um hræsni fyrir ákvörðunina.
Ragnar segir að til umræðu á fundinum verði, meðal annars, fjöldi þeirra kjörinna fulltrúa og starfsmanna verkalýðshreyfinga sem eru í framboði núna og aðkoma verkalýðshreyfinga að framboðum og pólitísku starfi almennt.