Þakkaði þjóðinni fyrir og óskaði henni friðar

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti og Bjarni Benediktsson forsætisráðherra fyrir utan Þingvallabæinn.
Volodimír Selenskí Úkraínuforseti og Bjarni Benediktsson forsætisráðherra fyrir utan Þingvallabæinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Volodimír Selenskí Úkraínu­for­seti þakkaði íslensku þjóðinni fyrir og óskaði henni friðar er hann ávarpaði fjölmiðla með Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra á Þingvöllum nú fyrir skömmu. 

Aðspurður um skilaboð til íslensku þjóðarinnar sagðist forsetinn vera þakklátur og óskaði hann þjóðinni friðar. Þá sagði hann helstu gildi fólks vera friður, lýðveldi og frelsi. 

Bjarni Benediktsson hóf ávarpið með því að segja að það væri heiður og forréttindi að fá Selenskí til Þingvalla. 

„Úkraínumenn eru að berjast fyrir frelsi lands síns, fyrir framtíð barna sinna, fyrir sjálfstæði sínu og einnig fyrir virðingu alþjóðlegra laga,“ sagði forsætisráðherrann og undirstrikaði jafnframt mikilvægi Þingvalla í sjálfstæðissögu Íslands. 

Selenskí tók svo við orðinu þar sem hann þakkaði forsætisráðherranum fyrir boðið og þá þakkaði hann einnig fyrir þann stuðning sem Úkraína hefur fengið frá Íslandi sem og hinum norrænu ríkjunum.

Væri ekki hægt án stuðnings

„Við erum að verja líf okkar, heimili okkar og börnin okkar á hverjum degi en það væri ekki hægt án stuðnings frá vinaþjóðum okkar. Við erum mjög þakklát en í dag þurfum við að vera miklu sterkari til þess að stöðva Pútín og það er það sem ég vil ræða við vini okkar og bandamenn.“

Herra forseti, hvaða skilaboð hefurðu til íslensku þjóðarinnar?

„Við erum þakklát þjóðinni ykkar. Hvaða skilaboð get ég gefið? Ég óska ykkur friðar. Ég held að stærsta gildi sem fólk getur haft sé friður. Auðvitað líka lýðveldi og frelsi. Frelsi er gífurlega mikilvægt. Það er það sem ég óska ykkur,“ sagði Selenskí.

Selenskí og Bjarni funda nú saman í ráðherrabústaðnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert