Ljóst er að fjárfesta þarf í betra sveitarstjórnarfólki eftir að sveitarfélagið í Skagafirði ætlaði ekki að virða viðmiðunarreglur Kennarasambands Íslands um verkfallsboðun á leikskólanum Ársölum á Sauðárkróki í dag.
Þetta segir Haraldur Freyr Gíslason, formaður Félags leikskólakennara, í samtali við mbl.is.
Verkfall kennara í níu skólum hófst um miðnætti. Um er að ræða fjóra leikskóla, þrjá grunnskóla, einn framhaldsskóla og einn tónlistarskóla. Einn leikskólanna er leikskólinn Ársalir.
Haraldur segir að síðdegis í gær hafi hann orðið var við að sveitarfélagið ætlaði ekki að virða viðmiðunarreglur KÍ. Tölvupóstur hafi verið sendur á foreldra barna á leikskólanum þar sem tilkynnt var um að skerðing yrði á starfsemi leikskólans en að hann yrði opinn.
Lögð var áhersla á að stór hluti barnanna mætti mæta í skólann.
Kennarar á öllum skólastigum fjölmenntu fyrir utan Ársali í morgun til að standa vörð um rétt leikskólakennara. Haraldur segir að mikill samhugur hafi verið í fólki og foreldrar barnanna tóku þessu með stóískri ró.
Aðspurður hvort Félag leikskólakennara hyggist kæra sveitarfélagið segir hann það ekki liggja fyrir. Það muni koma í ljós á næstu dögum hvaða stefnu sveitarfélagið hyggst taka í málinu.
Í frétt Vísis er haft eftir Sigfúsi Inga Sigfússyni, sveitarstjóra Skagafjarðar, að til séu fjölmörg fordæmi fyrir því að leikskólar séu hafðir opnir þrátt fyrir verkfall hluta starfsmanna.
Haraldur vísar þessu algjörlega á bug og segir að leikskólakennarar hafi ekki farið í verkfall síðan árið 1984, þegar félagið tilheyrði BSRB. Hann sé ólíklega að vitna í það verkfall.
„Við höfum tvisvar boðað verkföll, 2011 og 2014. Þetta eru nákvæmlega sömu viðmiðunarreglur og voru þá. Leikskólar fóru einu sinni í verkfall þegar þeir voru í BSRB og það var árið 1984 með öllum ríkisstarfsmönnum.“
Viðmiðunarreglurnar miðast við að starfsmanni sem stendur utan KÍ er heimilt að mæta til vinnu en þeim er ekki heimilt að ganga í starf þeirra sem eru í verkfalli.
Þá er óheimilt að hafa deild á leikskóla opna sé kennari í verkfalli. Hins vegar er heimilt að hafa hana opna ef deildarstjórinn stendur utan KÍ með því starfsfólki sem er fyrir á deildinni.
„Það er ekki heimilt að færa til starfsfólk til þess að ganga í störf leikskólakennara sem mögulega væru þá á deild sem væri opin.“
Hann segir baráttuna um bætt kjör kennara fyrst og fremst vera baráttu fyrir börnin. Þau eigi skilið miklu fleiri fagmenntaða kennara eins og lög kveða á um.
„Þessi barátta, að fjárfesta í kennurum, er barátta fyrir börnin. Börnin eiga skilið fleiri fagmenntaða kennara, eins og lög kveða á um. Okkur vantar kennara og um það snýst þetta.“