Játaði að hafa þegið greiðslur frá syninum

Frá þingfestingu málsins í ágúst.
Frá þingfestingu málsins í ágúst. mbl.is/Eyþór

Rúmlega sjötugur faðir eins sakbornings í Sólheimajökulsmálinu játaði fyrir dómi að hafa þegið greiðslur frá syni sínum. Hann vildi aftur á móti ekki upplýsa fyrir hvað hann fékk greitt.

Maðurinn er einn fimmtán sakborninga í málinu. Hann og sonur hans eru ákærðir fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot. Þá er sonur hans, sem er á fertugsaldri, einnig ákærður fyrir skipulagða brotastarfsemi.

Þeir neita báðir sök, en sonurinn kom fram fyrir dómi í gær. Hann var annar tveggja manna sem reyndu að flytja inn kókaín sem var falið í pottum um borð í skemmtiferðaskipi sem lagðist við höfn í Reykjavík í apríl á þessu ári.

„Voða litlar greiðslur“

Á heimili föðurins fundust um 170 grömm af amfetamíni og um 670 grömm af kókaíni í september á síðasta ári.

Sonurinn sagðist í gær ekkert vita um fíkniefnin sem fundust á heimili föðurins.

Faðirinn flutti skýrslu í gegnum fjarfundarbúnað og sagði strax að hann ætlaði ekki að tjá sig.

Er Karl Ingi Vilbergsson saksóknari hóf að spyrja hann spurninga svaraði hann þó.

Hann sagðist hafa fengið „voða litlar greiðslur“.

Spurður hversu mikið svaraði hann að það hefði verið upp og ofan.

Karl Ingi spurði þá hvort hann gæti nefnt tölu og svaraði faðirinn þá neitandi. Hann sagði son sinn hafa látið hann hafa pening.

Vanhaga um 100 þúsund

Saksóknari bar þá undir föðurinn samskipti hans við annan sakborning í málinu og soninn.

Hann neitaði að tjá sig, en samskiptin á milli feðganna benda til þess að faðirinn hafi verið ósáttur með að hafa ekki verið búinn að fá 100 þúsund krónur greiddar.

Dómari spurði faðirinn að lokum fyrir hvað greiðslurnar væru og neitaði faðirinn aftur að tjá sig.

Skýrslutökur og vitnaskýrslur Sólheimajökulmálsins halda áfram út vikuna. Gert er ráð fyrir málflutningi sækjanda og verjanda í upphafi næstu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka