Kannast ekki við afhendingu um 30 milljóna

Sakborningar eru ásakaðir um peningaþvætti.
Sakborningar eru ásakaðir um peningaþvætti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sakborningar í Sólheimajökulsmálinu vildu ekki kannast við að hafa stundað peningaþvætti. Samkvæmt ákæru fóru nærri 30 milljónir í reiðufé manna á milli. Annars vegar í október 2023 og hins vegar í mars 2024.

Höfuðpaurar málsins, Jón Ingi Sveinsson og Pétur Þór Elíasson, eru ákærðir fyrir peningaþvætti í skipulagðri brotastarfsemi með því að hafa í fórum sínum 18. október á síðasta ári tæplega 12,4 milljónir í reiðufé. Peningurinn er sagður hafa verið afrakstur brotastarfsemi.

Samkvæmt ákæru á Jón Ingi að hafa afhent öðrum sakborninganna peningana í hankapoka.

Maðurinn afhenti Pétri Þór peningana á bifreiðaverkstæði hans í Kópavogi. Pétur á að hafa afhent enn öðrum sakborningi féð degi síðar. Lögregla fann peningana í vörslu þess manns sama dag.

„Langsótt“

Jón Ingi sagðist koma „alveg af fjöllum“ spurður út í peningaþvættið fyrir dómi.

Maðurinn sem hann á að hafa afhent peningana er vinur hans frá því þeir voru á sjó saman. Þeir voru einnig nágrannar og maðurinn heimsótti Jón Inga nokkrum sinnum.

Sá maður neitaði sök fyrir dómi og neitaði að tjá sig.

Jón Ingi sagðist ekki kannast við að hafa afhent manninum poka. 

Í skýrslutöku hjá lögreglu greindi maðurinn frá því að Jón Ingi hefði afhent honum pokann og hann farið með hann á verkstæði Péturs Þórs og skilið hann þar eftir.

Jón Ingi sagðist ekki skilja af hverju maðurinn segði þetta og að það væri ekki rétt.

Þá sagðist hann ekki skilja að nokkur manneskja myndi skilja 12 milljónir í reiðufé á verkstæði yfir nótt.

„Mér finnst það svo langsótt,“ sagði Jón Ingi og bætti við að honum þætti þetta rosalega skrýtið og skildi ekki af hverju væri verið að bendla hann við þetta.

Fólk kom og fór

Pétur Þór sagðist einnig ekki kannast við þetta.

Hann sagði manninn ekki hafa komið með poka á verkstæði hans, né annar maður sótt þangað poka.

Ljósmyndir lögreglu sýna aftur á móti mann koma á verkstæðið með poka og skilja hann þar eftir.

Pétur Þór sagði mikið að gera hjá honum í vinnunni. Hann hefði verið með sex til sjö manns í vinnu og hann gæti ekki fylgst alltaf með hverjir kæmu og færu.

Jón Ingi Sveinsson í Héraðsdómi Reykjavíkur í ágúst.
Jón Ingi Sveinsson í Héraðsdómi Reykjavíkur í ágúst. mbl.is/Eyþór

Reyndi að fara með peninganna úr landi

Jón Ingi og annar maður eru ákærðir fyrir peningaþvætti í mars á þessu ári.

Þeir eiga að hafa sammælst þann 22. mars á þessu ári um að maðurinn færi að heimili annars sakbornings í Árbænum til að sækja 16,2 milljónir í reiðufé.

Peningurinn er talinn hafa verið afrakstur brotastarfseminnar og/eða ávinningur af öðrum refsiverðum brotum.

Lögregla fylgdist með manninum ná í peningana aftur í Árbæinn og fara með þá í námunda við heimili enn annars sakbornings að Hlíðarenda þar sem hann afhenti honum þá.

Sá maður fór með peningana í Vogahverfið og afhenti fjórða sakborningnum fjármunina og átti hann að fara með þá úr landi.

24. mars var hann stöðvaður á Keflavíkurflugvelli á leið sinni til Vínarborgar með fjármunina.

Úr dómsal í gær.
Úr dómsal í gær. mbl.is/Karítas

Lögreglan að reyna setja hann í ákveðið hlutverk

Jón Ingi sagðist ekkert kannast við þetta.

Í gögnum málsins er símtal Jóns Inga við meðákærða um fjármunina.

Jón Ingi sagðist ekki vera annar mannanna á upptökunni. Hann hefði munað eftir þessu símtali ef svo væri.

Hann sagði meðákærða hafa komið oft í heimsókn til hans. Það væri ekkert óeðlilegt.

Jóni Inga var orðið nokkuð heitt í hamsi og sagði lögregluna vera að reyna að setja hann í ákveðið hlutverk.

Vísaði hann þar til símtalsins þar sem Jón Ingi á að hafa sagst vera fara til Barcelona á Spáni á miðvikudegi, en í raun hafi hann farið á þriðjudegi.

„Þetta er bara rangt allt saman,” sagði hann.

Þrættu um tölvuleiki

Meðákærði neitaði brotinu og sagðist muna lítið eftir þessu.

Hann sagði ekkert skrýtið að hann heimsótti vini sína, Jón Inga og manninn í Árbænum. Jón Ingi og hann þrættu oft um hvor væri betri í tölvuleikjum.

Hann vildi ekki tjá sig um hvort hann hefði fengið eða afhent peningana.

Þá vildi hann ekki tjá sig um símtalið örlagaríka.

Geymdi oft hluti fyrir vini

Maðurinn sem tók á móti peningunum í Árbænum sagðist fyrir dómi hafa geymt poka fyrir þennan tiltekna æskuvin sinn. Hann hafi ekki vitað hvað var í honum, né spurt út í það.

„Ahverju ætti ég að gera það?” svaraði hann spurður af Karli Inga saksóknara af hverju hann skoðaði ekki það sem var í pokanum.

Hann hefði oft geymt hluti fyrir þennan vin sinn sem bjó ekki á öruggum stað.

Þá sagðist hann ekki vita til þess að æskuvinurinn tengdist skipulagðri brotastarfsemi.

Sakborningar málsins eru 15 talsins.
Sakborningar málsins eru 15 talsins. mbl.is/Karítas

Fór með ferðamenn í laxveiðitúra

Bæði Jón Ingi og maðurinn sem ákærður er fyrir sama brot vildu gera grein fyrir fjármunum sem fundust á heimilum þeirra og upptökukrafa er gerð um.

Í tilfelli Jóns Inga er um að ræða 310 þúsund krónur, 24.210 evrur, því sem nemur 3,6 milljónum króna, 100 tyrkneskar lírur og 20 pólsk slotí.

Hann sagðist alls ekki vilja missa þessa peninga. Þeir væru tekjur sem hann hefði af því að fara með ferðamenn í laxveiðitúra.

Jón Ingi sagðist ekki vera með posa og fólkið því greitt honum í peningum. „Þetta er bara búið að safnast upp.” 

Þá sagðist hann hafa gert grein fyrir tekjunum á skattaskýrslum.

„Ofboðslega leiðinlegt að tapa þessum pening og ósanngjarnt,“ sagði Jón Ingi.

Peningar úr rekstri

Í tilfelli meðákærða er um að ræða 2.597.000 krónur, 400 evrur og 80 dollarar.

Hann sagðist hafa verið í rekstri sem fór á hausinn. Hann vildi halda rekstrinum áfram og því tekið út peninga til að borga byrgjum og standa við skuldbindingar sínar.

Þá sagði hann evrurnar og dollarana vera peninga sem hefðu safnast saman í gegnum tíðina.

Að lokum var hann spurður út í persónulegu hagi sína.

Hann sagðist vera í rekstri sem gengi upp og niður. Þá væri hann að vinna úr miklum áföllum sem hann hefði orðið fyrir og nefndi að hann hefði misst um helming fjölskyldu sinnar á innan við ári.

Skýrslutökur yfir sakborningum Sólheimajökulsmálsins halda áfram í dag.

Einn sakborninga málsins.
Einn sakborninga málsins. mbl.is/Karítas
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka