Matvís skaðabótaskylt vegna ósanninda starfsmanna

Eftirlitsaðilar fóru í vettvangsrannsókn á Flame í Borgartúni.
Eftirlitsaðilar fóru í vettvangsrannsókn á Flame í Borgartúni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Matvæla- og veitingafélag Íslands (Matvís) hefur verið dæmt til að greiða veitingastaðnum Flame skaðabætur vegna hátternis starfsmanna félagsins í vettvangsheimsókn.

Þetta er niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur í kjölfar málsóknar Teppanyaki Iceland ehf., sem rak veitingastaðinn Flame, og Borgar 16 ehf., sem rak veitingastaðinn Bambus, á hendur Matvís.

Eru starfsmenn Matvís sagðir hafa borið ósannindi á borð við starfsmenn veitingastaðarins Flame í vettvangsrannsókn í ágúst árið 2022. Eru þeir sagðir hafa sagt við starfsmennina að Flame væri komið í greiðslustöðvun og að starfsfólk myndi ekki fá greidd laun næstu mánaðamót.

Yfirgaf starfsfólkið staðinn í ljósi þessara upplýsinga og var staðnum lokað í kjölfarið.

Þríþætt málsókn 

Málið á rætur sínar að rekja til þess þegar fagfélögin gáfu út yfirlýsingu til fjölmiðla í ágúst 2022 um að grunur lægi um „stórfelldan launaþjófnað“ í kjölfar vinnustaðaeftirlits fagfélaganna á veitingastöðum í Reykjavík. Fljótlega kom í ljós að það voru veitingastaðirnir Bambus og Flame.

Eigendur Bambus og Flame voru þau Bei Wang og Davíð Fei Wang. Þau opnuðu Bambus árið 2013 en Flame árið 2020.

Var málsóknin á hendur Matvís þríþætt í tilviki Flame. Sneri hún að því að hátterni starfsmanna Matvís við vinnustaðaeftirlitið væri ólögmætt, að fréttatilkynning þar sem staðhæft var um allt að 16 tíma viðveru starfsmanna væri ekki sannleikanum samkvæm og að hátterni eftirlitsaðila í fjölmiðlum þar sem „rangar“ fullyrðingar voru ítrekaðar bæru með sér skaðabótaskyldu.

Launauppgjör ekki í samræmi við kjarasamninga 

Eftirlitsaðilar Matvís voru sýknaðir af því er snýr að fréttatilkynningu og fullyrðingum í fjölmiðlum.

Byggði sýknan á tjáningarfrelsi eftirlitsaðilanna.

Í dómnum kemur fram að tilkynning Matvís hefði gefið til kynna að brotin hefðu verið alvarlegri en raun bar vitni.  

Þar kemur þó einnig fram að óumdeilt þyki að launauppgjör á stöðunum hefðu ekki verið í samræmi við kjarasamninga.

Gert að greiða hluta málskostnaðar

Var það niðurstaða Héraðsdóms að fallast á kröfu Teppanyaki Iceland ehf. um að hátterni starfsmanna bæri með sér skaðabótaskyldu.

Var Matvís gert að greiða hluta málskostnaðar Teppanyaki Iceland ehf. eða upp á um 1,2 milljónir króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert