Myndskeið: Hlýjar móttökur Selenskís á Bessastöðum

„Selenskí forseti, velkominn til Íslands. Það er virkilega indælt að taka á móti þér,“ sagði Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, þegar hún tók á móti Volodimír Selenskí Úkraínuforseta á tröppum Bessastaða í morgun.

Eins og búist var við var öryggisgæslan gríðarlega mikil í aðdraganda heimsóknarinnar.

Lögregluhundur þefaði af myndavélabúnaði sem ljósmyndarar fjölmiðla höfðu meðferðis og eftir að blaðamenn höfðu lagt bílum sínum í nágrenni við Bessastaði var þeim fylgt þangað af lögreglumanni, sem er óvenjulegt þegar um blaðamannafund er að ræða.

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti á leið á Bessastaði í fylgd lögreglu …
Volodimír Selenskí Úkraínuforseti á leið á Bessastaði í fylgd lögreglu og öryggisvarða. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nokkru síðar blikkuðu blá ljós á Álftanesvegi og var þá ljóst að bílalest Selenskís var á leiðinni. Í kringum Bessastaði stóðu vopnaðir sérsveitarmenn vörð.

Þegar Selenskí steig út úr bíl sínum gekk hann upp tröppurnar að Bessastöðum þar sem Halla tók hlýlega á móti honum.

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, og Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, takast …
Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, og Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, takast í hendur á tröppum Bessastaða í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þegar inn var komið fóru forsetarnir tveir inn á Thomsen-skrifstofu þar sem Selenskí settist við skrifborðið og skrifaði í gestabókina.

Að því loknu var farið inn í bókhlöðu Bessastaða þar sem upphaf tvíhliðafundar forsetanna var myndað.

Selenskí skrifaði nafn sitt í gestabókina.
Selenskí skrifaði nafn sitt í gestabókina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fékk lítinn svefn í nótt

Halla spurði Selenskí hvort hann hefði náð einhverjum svefni í nótt og kvaðst hann ekki hafa fengið langan svefn.

Kemur það ekki á óvart enda Úkraínuforseti sérlega upptekinn maður.

Forsetarnir tveir voru myndaðir í bak og fyrir í bókhlöðu …
Forsetarnir tveir voru myndaðir í bak og fyrir í bókhlöðu Bessastaða. mbl.is/Freyr

Fjölmiðlum hafði verið greint frá því að engin formleg yfirlýsing yrði veitt að loknum fundi forsetanna og yfirgáfu blaðamenn því Bessastaði að myndatökum loknum.

Selenskí mun síðar í dag sækja þing Norður­landaráðs, sem verður sett kl. 14.15. Munu þeir Birg­ir Ármanns­son, for­seti Alþing­is, og Ein­ar Þor­steins­son borg­ar­stjóri flytja þar setn­ingarávörp.

Þá flytur Selenskí sjálfur ávarp kl. 10.40.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka