Segir Norðurlöndin hafa margt að vernda

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra Íslands.
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra Íslands. mbl.is/Karítas

„Við erum það svæði í heiminum þar sem velmegun og vellíðan er mæld í hæstu hæðum. Það er því margt sem þarf að vernda. Við búum við fullt lýðræði og ef við bregðumst ekki við í tíma höfum við miklu að tapa.“

Þetta sagði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra á fundi forsætisráðherra Norðurlandanna í morgun.

Sagði hann Norðurlöndin og norrænt samstarf hafa margt að vernda. 

Á fundinum, sem haldinn var í tengslum við þing Norðurlandaráðs, voru öryggismál í brennidepli. Ráðherrarnir ræddu meðal annars skipulagða brotastarfsemi og hvaða skref væri hægt að stíga til að stemma stigu við henni.

Bjarni Benediktsson á blaðamannafundinum í morgun.
Bjarni Benediktsson á blaðamannafundinum í morgun. mbl.is/Karítas

Auðvelda búsetu, flutninga og viðskipti

Einnig ræddu ráðherrarnir samfélagsleg málefni sem snúa að einstaklingum og fyrirtækjum, meðal annars með hvaða hætti sé hægt að gera Norðurlöndin að enn blómlegra svæði til búsetu. 

Bjarni sagði vinnu standa yfir sem miðaði að því að auðvelda búsetu á Norðurlöndum, fólki að flytja á milli ríkja, stunda viðskipti og fleira. 

Sérstök áhersla var lögð á öryggismál á fundinum. Bjarni sagði að horfast þyrfti í augu við sýnilegar ógnir og vísaði þar til varnarmála annars vegar og öryggismála hins vegar.

Stoltur hluti af norrænu fjölskyldunni

Hann sagðist stoltur af því að vera hluti af norrænu fjölskyldunni og yfir því hvað Norðurlönd hefðu og væru að gera til að vernda þau gildi sem ráðist væri á í Úkraínu.

Þá ræddi hann bæði innflytjendamálin og skipulagða glæpastarfsemi á Norðurlöndum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka