Skrif Jóns lærða þýdd á frönsku

Denis Laborte, Mathilde Morin og Viola Miglio á góðri stundu.
Denis Laborte, Mathilde Morin og Viola Miglio á góðri stundu. Ljósmynd/Baskavinafélagið

Skrif Jóns Guðmundssonar lærða um Baskavígin svokölluðu á Vestfjörðum eru nú einnig aðgengileg á frönsku. Frásögnina skrifaði Jón upphaflega árið 1615 og er hún Íslendingum vel kunn en hún hafði áður verið þýdd á önnur tungumál.

Baskar búa ekki einungis á spænskri grundu heldur einnig á franskri. Eru sitt hvorum megin við landamæri Frakklands og Spánar ef svo má segja. Baskavinafélagið á Íslandi kom að þessari nýju þýðingu á bók Jóns lærða og var útgáfan kynnt á Haizebegi-hátíðinni nýverið í Bayonne.

Franska útgáfu vantaði

Mathilde Morin doktorsnemi þýddi en Haizebegi-hátíðin útdeilir gjarnan verkefnum til doktorsnema. Þýðingin var gerð eftir leiðsögn Viola Miglio, doktors í málvísindum, og skrifar hún einnig formála. Miglio er í stjórn Baskavinafélagsins og hafði áður þýtt bókina á spænsku.

„Útgáfa Sannrar frásögu á frönsku vakti athygli en Morin og Miglio voru með sérstaka kynningu á bókinni. Árið 2015 voru 400 ár liðin frá Baskavígunum á Vestfjörðum og þá var frásögn Jóns lærða þýdd á ensku, spænsku og basknesku. Það vantaði franska útgáfu og áhugi var fyrir því að koma út franskri þýðingu fyrir hátíðina í ár og það tókst,“ segir Ólafur Jóhann Engilbertsson formaður Baskavinafélagsins í samtali við Morgunblaðið.

Haizebegi-hátíðin fór fram 3.-13. október og síðustu fjórir dagarnir voru tileinkaðir Íslandi og samskiptum Íslendinga og Baska.

„Verkefnið snýst ekki aðeins um Baskavígin 1615 heldur einnig orðasöfnin sem eru varðveitt hérlendis og erlendis og sögu hvalveiða við Ísland. Segja má að þetta séu tvær örþjóðir sem berjast við að varðveita tungumál sitt og þar er einnig snertiflötur,“ segir Ólafur og hann er ánægður með hvernig til tókst.

„Þetta heppnaðist nokkuð vel. Það komu yfirleitt um sextíu til sjötíu manns á viðburðina sem tengdust Íslandi. Áherslan á Ísland vakti greinilega forvitni því fjallað var um hana í fjölmiðlum á svæðinu.“

Auga vindsins

Að sögn Ólafs eru bæði áherslur á þjóðhætti og list í samskiptum Baskavinafélagsins við Baskana.

„Á hátíðinni var lögð áhersla á Ísland síðustu fjóra dagana. Kvartettinn Umbra lék íslensk þjóðlög í eigin útsetningum en þær heimsóttu einnig skóla og fleiri staði. Haizebegi þýðir á basknesku Auga vindsins. Markmið hátíðarinnar er að koma á samtali milli ólíkra menningarheima. Eitt af því var að fá listafólk til að fara í skóla og á meðferðarheimili. Þær náðu einnig að þjálfa kór á tveimur dögum til að syngja með þeim íslensk lög á hátíðinni og var það upphafsatriðið á tónleikunum.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka