Núverandi fyrirkomulag flugrekstrar Landhelgisgæslunnar og Isavia er best í fjárhagslegu tilliti.
Þörf er á að auka viðveru flugvélar Landhelgisgæslunnar og með tilliti til viðbragðsgetu og þjónustustigs er samrekstur véla stofnananna besta fyrirkomulagið þótt það gæti reynst kostnaðarsamara.
Þetta kemur fram í skýrslu starfshóps dómsmálaráðherra, sem kanna átti fýsileika þess að reka sameiginlega flugvél fyrir Landhelgisgæsluna og Isavia.
Jón Gunnarsson þáverandi dómsmálaráðherra skipaði starfshópinn í júní 2023 en meginhlutverk hans var að kanna kosti þess að flugvélarnar tvær yrðu seldar og þess í stað ein vél rekin sem búin væri kostum til að sinna verkefnum beggja stofnana.
Niðurstaða starfshópsins er að flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, henti ekki í öllum tilvikum þeim verkefnum sem TF-FMS, flugvél Isavia, er notuð í. Þá uppfylli TF-FMS ekki skilyrði sem gerð eru vegna verkefna TF-SIF. Starfshópurinn kemst jafnframt að því að viðbragðsgeta og þjónustustig versni ef aðeins ein flugvél sé til staðar fyrir stofnanirnar og þá gildi einu hvort vél finnist sem fullnægi kröfum þeirra beggja.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.