„Ykkar barátta er okkar barátta“

Bryndís Haraldsdóttir og Volodimír Selenskí.
Bryndís Haraldsdóttir og Volodimír Selenskí. mbl.is/Karítas

Birg­ir Ármanns­son for­seti Alþing­is og Bryn­dís Har­alds­dótt­ir for­seti Norður­landaráðs lýstu bæði yfir full­um stuðningi við Úkraínu áður en Volodimír Selenskí Úkraínu­for­seti ávarpaði þing Norður­landaráðs í morg­un.

Birg­ir sagði það bæði mik­inn heiður og for­rétt­indi að taka á móti Selenskí og sagði öfl­ug­an stuðning vera á meðal þjóðþinga Norður­land­anna við Úkraínu. Sagði hann þau for­dæma ólög­lega og grimmi­lega inn­rás Rússa í Úkraínu og að þau væru ánægð með dugnað og and­spyrnu Úkraínu­manna.

Rúss­ar hefðu með inn­rás­inni virt alþjóðleg lög og mann­rétt­indi að vett­ugi og að þau þyrftu að svara til saka fyr­ir stríðsglæpi sína.

Birgir Ármannsson, Volodimír Selenskí og Bryndís Haraldsdóttir.
Birg­ir Ármanns­son, Volodimír Selenskí og Bryn­dís Har­alds­dótt­ir. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Árás á okk­ar gildi

Birg­ir minnt­ist á að öll Norður­lönd­in væru núna orðin hluti af NATO eft­ir að Sví­ar gengu til liðs við banda­lagið. Aðild Úkraínu að NATO yrði jafn­framt lyk­il­inn að því að tryggja ör­yggi og  frið, bæði í Úkraínu og um gjörv­alla Evr­ópu.

Bryn­dís sagði Norður­lönd­in standa þétt sam­an og að þau væru bund­in sam­an af sam­eig­in­legri sögu, menn­ingu og lýðræðis­hefð. Selenskí væri ekki bara að verja Úkraínu gegn grimmi­legri inn­rás Rússa held­ur gegn árás á þau gildi sem væru höfð í há­veg­um á Norður­lönd­um.

„Ég skal full­vissa þig um að við stönd­um öll sam­einuð með Úkraínu og að ykk­ar bar­átta er okk­ar bar­átta,“ sagði Bryn­dís og upp­skar lófa­klapp í saln­um. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert