„Ástandið er ömurlegt í kringum okkur“

Við höfum fengið reglulega skilaboð frá almannavörnum í símana okkar um að halda kyrru fyrir innandyra og við höfum hlýtt þeim skilaboðum.

Þetta segir Eggert Magnússon, fyrrverandi formaður KSÍ, sem býr ásamt eiginkonu, Guðlaugu Nönnu Ólafsdóttir, í Valencia á Spáni.

Gríðarlegt vatnsveður hefur gengið yfir Valenciu-hérað í austurhluta Spánar síðustu daga og hefur 51 lík fundist en víða í héraðinu eru flóð að völdum úrkomunnar.

„Það hefur verið hávaðarok og gríðarleg rigning síðustu þrjá daga og síðan þá höfum við fengið reglulega viðvaranir um að fara ekkert út,“ segir Eggert en þau hjónin hafa búið meira og minna í Valencia síðastliðin átta ár.

Hjónin Eggert Magnússon og Guðlaug Nanna Ólafsdóttir eru búsett í …
Hjónin Eggert Magnússon og Guðlaug Nanna Ólafsdóttir eru búsett í Valencia. Ljósmynd/Aðsend

Eggert segir að í hverfinu sem þau búa í sé ástandið allt í lagi en íbúð þeirra er á efstu hæð í nokkuð lokuðu hverfi.

„Við verðum vör við rokið og rigninguna en eina sem ég óttast á eftir að skoða er hvort það hafi eitthvað lekið inn í bílageymsluna,“ segir Eggert.

Ástandið hrikalegt í hverfum nær ströndinni

Eggert segir ástandið hrikalegt í hverfunum nær ströndinni en þar hafa ár flætt yfir bakka sína og breyst í stórfljót. Hann segir að margir hafi lokast inni og margra sé saknað en þegar sé vitað um að á sjötta tug manna hafi látist.

„Svona veður er mjög óalgengt í Valencia. Það koma þrumur og eldingar öðru hvoru þar sem mikil rigning fylgir í kjölfarið en nú hefur rignt látlaust meira og minna þrjá daga í röð sem gerist afar sjaldan. Þetta er eitthvað sem við þekkjum ekki. Ástandið er ömurlegt í kringum okkur en í góðu lagi þar sem við erum,“ segir Eggert. 

Vonast til að geta farið á leik Valencia og Real Madrid

Eggert segir að skólar og barnaheimili séu lokuð og allir íþróttaviðburðir hafi verið felldir niður og þá sé fólk beðið um að halda sig heima fyrir. Hann segir að akstursleiðir út úr borginni séu stíflaðar vegna bíla sem komast hvergi enda flestir hverjir á kafi í vatni.

Eggert og hans frú hafa verið tíðir gestir á heimaleikjum Valencia í spænsku deildinni og á laugardagskvöldið tekur Valencia á móti meistaraliði Real Madrid. Eggert, sem eins og flestir vita er mikill knattspyrnuáhugamaður, vonast til þess að leikurinn geti farið fram og þau hjónin geti mætt á völlinn.

Frá Picanya sem er nálægt Valencia.
Frá Picanya sem er nálægt Valencia. AFP
Það er allt á floti í Valenciu-héraði.
Það er allt á floti í Valenciu-héraði. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka