Atvinnu-AirBnb „ígildi þess að reka gistiheimili“

Kristrún Frostadóttir kynnti útspil Samfylkingarinnar í húsnæðis- og kjaramálum á …
Kristrún Frostadóttir kynnti útspil Samfylkingarinnar í húsnæðis- og kjaramálum á fjölmiðlafundi á Egilsstöðum. Ljósmynd/Samfylkingin

Samfylkingin hyggst grípa til bráðaaðgerða til að „losa íbúðir“ á almennum vinnumarkaði. Aðgerðirnar felast í takmörkun á AirBnb-útleigu hér á landi og veita sveitarfélögum heimild til að leggja tómthússkatt á tómar íbúðir.

Flokkurinn hyggst takmarka AirBnb-útleigu við eitt húsnæði á mann og að sumarbústaðir og lögheimili geti aðeins verið leigðir út í 90 daga á ári.

„Þetta eru bráðaaðgerðir vegna þess að við vitum að við verðum að losa íbúðir og lyfta undir nýbyggingu íbúðahúsnæðis. Þetta er bara forgangsatriði núna að íbúðir séu nýttar sem heimili fólks,“ segir Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, en flokkurinn kynnti í dag sitt útspil í húsnæðis- og kjaramálum fyrir komandi þingkosningar á fjölmiðlafundi á Egilsstöðum.

Snýr ekki að tekjuöflun

Formaðurinn tekur fram að tómthússkaturinn sé ekki heimilaður til að auka tekjur ríkissjóðs, heldur vilji flokkurinn aðeins að veita sveitarfélögum tækifæri á að leggja slíkan skatt til þess að liðka fyrir á húsnæðismarkaði.

Auk þess segir Kristrún fjölda sveitarfélaga hafa óskað eftir slíkri heimild.

„Þetta snýr ekki að tekjuöflunarleið, heldur erum við fyrst og fremst að reyna að taka fyrir það að það sé verið að taka heimili fólks – íbúðir sem eiga að vera heimili fólks, í notkun fyrir ungt fólk, fólk sem er að stíga sín fyrstu skref á húsnæðismarkaði eða jafnvel á svæðum þar sem erftitt er að komast yfir húsnæði – að þetta sé í eigu fólks sem raunverulega býr þar,“ segir hún.

„Það er fjöldi sveitarfélaga sem hefur kallað eftir þessu, ríkisstjórnin hefur verið með þetta á áætlun, en nú erum við að segja að það er kominn tími til aðgerða í þessu samhengi.“

„Að koma í veg fyrir að húsnæði sé nýtt sem fjárfestingavara“

Þá sé tómthússkattheimildin aðeins ein aðgerð af mörgum. Auk annarra megi nefna herðingu á löggjöf er varðar skammtímaleigu á vegum AirBnb.

„Við erum líka að tala um að koma á stjórn á AirBnb, og að við takmörkum heimagistingu við eigin lögheimili fólks eða sumarbústað,“ segir Kristrún.

En ef fólk vill gera leigja út AirBnb í atvinnyskyni þá verði það að vera leigt í samfelldu atvinnuhúsnæði. „Þá ertu í rauninni að tala um ígildi þess að reka gistiheimili,“ segir Kristrún enn fremur.

„Þetta eru fyrst og fremst aðgerðir til að koma í veg fyrir að húsnæði sé nýtt sem fjárfestingavara og að við forgangsröðum húsnæði og íbúðum undir heimili fólks.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka