Ekkert spurst til nágrannans úr bílakjallaranum

Erla María Huttunen er íbúi í Catarroja sem liggur rétt …
Erla María Huttunen er íbúi í Catarroja sem liggur rétt utan við Valencia. Hún horfði upp á flóðið nálgast úr fjölbýlishúsi sínu.

Íslensk kona sem búsett er í Catarroja, rétt utan við Valencia, segir flóð hafa komið að fjölbýlishúsi hennar með afar skömmum fyrirvara í gærkvöldi. Skömmu áður höfðu maður hennar og nágrannar verið í niðurgröfnum bílakjallara til að koma fyrir hlera til að reyna að verjast vatninu.

Að sögn hennar mátti hlerinn sín lítils þegar vatnsflaumurinn kom af fullum krafti. Ekkert hefur spurst til eins nágranna hennar sem var í bílakjallaranum rétt fyrir flóðið.

Þriggja daga þjóðarsorg hefur verið lýst á Spáni.

Reynir að hugsa það besta 

Erla María Huttunen er 41 árs kennari sem býr í Catarroja. Hún segist óttast um afdrif nágrannans. Sérstaklega í ljósi þess að vatnshæðin fór mest upp í tæpa tvo metra á götum úti en bílakjallarinn er neðanjarðar. Á meðfylgjandi myndbandi má sjá hversu hratt flæddi að. 

„Maður reynir að hugsa það besta, en við vitum ekki hvað hann gerði, hvort hann hafi tekið bílinn og farið eitthvað annað eins og hann var að hugsa um að gera. Hann var í kjallaranum að opna einhvern hlera eða holu sem átti að geta tekið á móti vatninu. Við vitum að hann varð eftir í kjallaranum en hvort hann hafi tekið bílinn og farið vitum við ekki. Konan hans hefur árangurslaust reynt að hringja í hann frá því í gærkvöldi. Við vitum af þeim möguleika að hann hafi ekki komist út úr bílakjallaranum því vatnið kom svo fljótt,“ segir Erla María.

Bílar fljótandi um allt og öskur heyrðust 

Cattaroja er einungis í um þriggja mínútna akstursfjarlægð frá Valenciaborg og lýsir hún fjarlægðinni svona eins og úr miðbæ og upp í Kópavog.

Að sögn Ernu fór rafmagnið í gærkvöldi en það komst aftur á að nýju fyrir skemmstu. Enn er þó vatnslaust en fjölskyldan hafur nóg matarkyns í bili til að redda sér. Þá er netið mjög stopult en símasambandið hefur haldist nokkuð vel.

Erla er föst í íbúðinni sinni ásamt fjölskyldunni. Auk eiginmannsins á Erla tvær stúlkur, 5 og 15 ára.

„Sú yngri var sérstaklega orðin hrædd. Við sáum náttúrlega bílana fljótandi, að klessast út um allt. Svo heyrðum við öskur sem var náttúrlega óþægilegt. Svo í morgun komumst við að því að nágranna okkar, konu á jarðhæðinni og unglingsbarni, var bjargað með lökum og þau toguð á milli hæða. Svo var nágranni okkar að tala um að hafa séð konu fljótandi á bílþaki og fara hjá bjargarlaus,“ segir Erla.

Féllu í vatnið fyrir utan 

Erla tók fjölmörg myndbönd af því sem fram fór á götunni fyrir neðan og horfði upp á það hversu snögglega vatnið reis. Meðal annars sá hún fólk falla í vatnið þegar það var að reyna bera manneskju yfir fljótið snemma kvölds. Sem betur fer virtist fólkið þó ná að bjarga sér úr þeim aðstæðum líkt og sést á meðfylgjandi myndbandi.

Ekkert eftir í verslunum 

„Það er búið að fara inn í allar verslanir og taka allt úr þeim. Það er t.d. ein lítil hverfisverslun beint á móti mér og mér skilst að það sé ekki eitt stingandi strá eftir,“ segir Erla.

Um það leyti sem Erla kveður blaðamann tilkynnir hún að þriggja daga „luto“ hafi verið lýst yfir, eða það sem gæti útlistast sem þjóðarsorg á íslensku.

Á meðfylgjandi myndbandi má svo sjá það sem blasti við íbúum í götunni um hádegisbilið í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka