„Erum á réttri leið“: Biðlar til orkufyrirtækja

Vilhjálmur Birgisson.
Vilhjálmur Birgisson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins og Verkalýðsfélags Akraness, segir að hjöðnun 12 mánaða verðbólgu niður í 5,1% sýna að við séum á réttri leið. Hann vonast eftir stýrivaxtalækkun í nóvember.

„Við erum á rétti leið, það þarf ekkert að fara í grafgötur með það. Þetta er í raun og veru í anda þess sem við lögðum upp með þegar við hófum þessa vegferð með langtímakjarasamningum með hófstilltum hætti, sem var að ná niður verðbólgunni og vöxtunum. Það er það sem skiptir okkar félagsmenn lang-, langmestu máli, ekki bara heimili og einstaklinga heldur líka fyrirtæki,“ segir Vilhjálmur, spurður út í verðbólgutölurnar.

Hann á von á því að frekari stýrivaxtalækkanir haldi áfram en peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnir næstu ákvörðun sína 20. nóvember. Síðast voru stýrivextir bankans lækkaðir um 0,25 prósentustig.

Vilhjálmur brýnir fyrir fyrirtækjum og öðrum að „taka þátt í þessu með okkur“ við að halda aftur af verðlagi. Hvergi megi slaka á í þeim efnum.

„Ég biðla sérstaklega til orkufyrirtækja sem hafa því miður ekki verið að stíga þennan dans sem launafólk hóf með langtímakjarasamningum með hófstilltum hætti. Þar hafa hækkanir verið langt umfram það sem eðlilegt getur talist. Ef það eru einhverjir sem hafa ávinning af því að ná niður verðbólgu og vöxtum þá eru það ofurskuldsett sveitarfélög og ríkissjóður,“ segir hann og bendir á að ríkissjóður sé að greiða 114 milljarða króna í vexti á þessu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka