Fimm börn á gjörgæslu

Barnaspítali Hringsins.
Barnaspítali Hringsins. mbl.is/Karítas

Ríflega 40 börn hafa greinst með E.coli-sýkingu, þar af eru fimm alvarlega veik og liggja á gjörgæslu.

Aðeins börn á leikskólanum Mánagarði hafa greinst með bakteríuna en ekki er hægt að útiloka ógreindar sýkingar meðal fullorðinna. Beðið er eftir niðurstöðu úr sýnum frá starfsmönnum.

Þetta segir Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir.

Færri börn greindust með E.coli-smit á síðustu tveimur dögum en dagana á undan.

Hópsýkingin virðist bundin við leikskólann, að sögn Guðrúnar, en enginn utan hans hefur greinst með bakteríuna. 

Bakterían ekki útbreidd í samfélaginu

Verið er að rannsaka sýni úr matvælunum og munu niðurstöður vonandi liggja fyrir á næstu dögum. Uppruni hópsýkingarinnar er því enn á huldu.

Guðrún segir þó spjótin beinast að matvælum enda hafi flest börn veikst á sama tíma sem þýði að ólíklegt sé að bakterían hafi smitast þeirra á milli. Eru meiri líkur á að uppruni sýkingarinnar sé sá sami hjá flestum.

Bakterían smitast ekki auðveldlega á milli manna.

Hún lifir í þörmum og er smitleiðin með saur. Þarf bakterían að berast í munn fólks. Er því ólíklegt að aðrir en þeir sem hafa þurft að aðstoða börn á klósettinu eða umgangast þau á heimilinu séu útsettir fyrir smitum, að sögn Guðrúnar.

Hópsýkingin á Mánagarði alvarlegri

E.coli hópsýking kom upp árið 2019. Mátti þá rekja upprunann til ferðaþjónustubýlis í Bláskógabyggð. 

Guðrún segir sýkinguna núna alvarlegri. Fleiri börn séu smituð og alvarlega veik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka