Höfuðpaurinn tekur á sig ólöglegan innflutning

Jón Ingi er hér til hægri á myndinni.
Jón Ingi er hér til hægri á myndinni. mbl.is/Karítas

Jón Ingi Sveinsson, höfuðpaurinn í Sólheimajökulsmálinu, játar að hafa tekið þátt í að flytja inn rúm tvö kíló af kókaíni til landsins falið í pottum með skemmtiferðaskipinu AIDAsol í apríl. Hann segist hins vegar ekki hafa skipulagt brotið.

Þriðji dagur aðalmeðferðar málsins er í dag. Byrjun dagsins fór í skýrslutökur yfir þremur mönnum sem ákærðir eru fyrir skipulagða brotastarfsemi og stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa flutt inn kókaínið. Fjórði maðurinn, sem var um borð í skipinu, hefur játað brotið.

Annar mannanna sem fór með skemmtiferðaskipinu frá Hamborg í Hollandi lýsti því fyrir dómi að hann hefði ekki vitað að félagi hans væri að flytja inn kókaínið. „Það var ekkert hlutverk. Ég var bara farþegi,” sagði maðurinn á einum tímapunkti.

Ákvað að slá til

Maðurinn er á fertugsaldri. Faðir hans er einnig ákærður í málinu og kom fram fyrir dómi í gær.

Hann lýsti aðdraganda ferðarinnar svo að félagi hans hafi beðið sig um að koma með sér í ferðina í janúar.

Maðurinn var ný hættur með kærustu sinni og ákvað að slá til. Þá sagðist hann vorkenndi félaga sínum sem vildi ekki fara einn.

Man lítið sem ekkert

Félaginn, sem hefur játað brotið, kom síðar fyrir dómi og bar fyrir sig minnisleysi og mikil andleg veikindi. Hann væri á sterkum geðlyfjum.

Maðurinn sagðist ekki þekkja áðurnefnda mann og ekki vita hvernig þetta æxlaðist allt saman.

„Andleg veikindi mín hafa leitt mig í mjög leiðinlegar aðstæður og þetta er ein af þeim,“ sagði hann fyrir dómi.

Evrópureisa

Mennirnir flugu til Madrídar á Spáni 1. apríl. Þar voru þeir í eina nótt áður en þeir tóku lest til Barcelona.

Hann sagði félaga sinn hafa farið út eitt kvöldið þar, en hann ekki nennt með. Félaginn hafi síðan komið til baka á hótelherbergið með Ikea poka með pottunum. Maðurinn sagðist ekki hafa spáð meira í því.

Þaðan fóru þeir til Parísar og voru eina nótt. „Mæli ekki með París,“ sagði maðurinn fyrir dómi.

Þaðan fóru þeir til Hamborgar þaðan sem skipið sigldi.

Maðurinn sagðist hafa spurt félaga sinn af hverju þeir fóru ekki beint til Hamborgar og á félaginn að hafa sagst viljað fara í reisu.

Maðurinn í dómsal á mánudag.
Maðurinn í dómsal á mánudag. mbl.is/Karítas

Elti hann eins og skugginn

Þegar skipið lagðist svo loks frá bryggju varð félaginn taugaóstyrkur að sögn mannsins. Hann hefði því grunað að hann væri í neyslu.

Þá fyrst vildi hann meina að hann grunaði að eitthvað ólöglegt væri í gangi.

Hann sagði félagann hafa verið uppáþrengjandi og elt hann um skipið eins og skuggi.

Maðurinn sagðist hafa viljað koma sér frá félaganum eins fljótt og hann gæti.

Spurður af Karli Inga Vilbergssyni saksóknara hvenær grunur læddist að honum sagðist maðurinn ekki muna dagsetningar.

Maðurinn sagðist ekki hafa vitað af innflutningnum.
Maðurinn sagðist ekki hafa vitað af innflutningnum. mbl.is/Karítas

Lögregla stoppi hann alltaf

Skipið lagðist síðan við bryggju hér á landi 11. apríl.

Maðurinn fór þá frá borði á undan félaga sínum og samkvæmt málsgögnum átti hann í samskiptum við hann þar sem hann sagði honum að tollurinn og lögreglan hefðu stoppað hann.

Fyrir dómi sagði hann lögreglu alltaf stoppa hann þegar hann kæmi til landsins.

Fyrir dómi sagðist félaginn hafa munað eftir blá Ikea pokanum og hafa sett hann inn í einhvern bíl. Fleira man hann ekki.

„Við spilum þetta eftir hendinni”

Samkvæmt málsgögnunum átti maðurinn samskipti við Jón Inga. Meðal annars sendi Jón Ingi skilaboðin: „Við spilum þetta eftir hendinni”, „Já hann fer frá borði með ekkert núna” og „Nei sjáum hvort þeir stoppi hann líka“.

Maðurinn sagðist ekki muna sig eftir þessu né vilja tjá sig um aðra sakborninga.

Spurður af verjanda sagði Jón Ingi manninn ekki hafa vitað af fíkniefnunum.

Enginn haft áhrif á framburðinn

Í þriðju og síðustu skýrslutöku Jóns Inga fyrir dómi sagðist hann kannast við aðild að þessu. Hann þvertók fyrir að hafa skipulagt innflutninginn.

Maðurinn, sem játaði þáttöku sína, sagði í yfirheyrslu lögreglu í apríl að Jón Ingi væri skipuleggjandinn. Fyrir dómi sagðist hann ekki muna eftir yfirheyrslunni.

Hann sagði þó þá vera vini frá því þeir voru á sjó og Jón Ingi hjálpað honum í gegnum tíðina, meðal annars við að fara í meðferð.

Karl Ingi spurði hvort að einhver hefði haft samband við hann vegna framburðar hans fyrir dómi. Maðurinn svaraði neitandi og sagðist hafa verið lokaður inn í fangelsi.

„Bara haft samband“

Jón Ingi sagðist hafa komið að málinu er mennirnir voru komnir um borð í skipið.

Þá sagðist hann hafa haldið að það ætti að flytja inn eitt og hálft kíló af kókaíni, ekki rúm tvö.

Spurður hver fékk hann inn í verkið neitaði Jón Ingi að svara. Hann sagði „bara haft samband“ við hann.

Spurður hvort hann vissi að fíkniefnin voru falin í pottum svaraði Jón Ingi játandi.

Karl Ingi spurði hann þá hvernig hann vissi það. „Það var búið að segja mér það,” sagði hann fyrir dómi.

Jón Ingi í héraðsdómi í ágúst.
Jón Ingi í héraðsdómi í ágúst. mbl.is/Eyþór

Skuldaði ekki 10 milljónir

Karl Ingi bar undir Jón Inga samtöl sem hann átti við annan sakborning í lok árs 2023 um að fá annan manninn í verkefni. Þeir hefðu þó haft áhyggjur af því að maðurinn væri í neyslu.

Maðurinn er sagður hafa skuldað Jóni Inga 10 milljónir króna. „Það er ekki rétt,” sagði Jón Ingi í dómsal.

Þá var hann spurður út í hljóðritanir á símtölum hans í janúar þar sem hann segist ætla senda manninn í ferð til að greiða upp skuldina.

Jón Ingi sagði hlerunina vera ólöglega þar sem hann var staddur í Dóminíska lýðveldinu.

Annað símtal sem hann á að hafa átt í mars þar sem Jón Ingi ræðir burðardýr sagðist hann ekki hafa átt. „Þetta er ekki ég,” sagði hann og sagðist ekkert vita um símtalið.

Ræddu að koma efnunum í land

Karl Ingi bar undir Jón Inga símtal sem hann átti við manninn er hann var um borð í skipinu.

„Við erum að ræða eitthvað að koma þessu í land,” sagði Jón Ingi í dómsal og sagðist taka það á sig „að hafa gert eitthvað ólöglegt“.

„Ég stýri alls ekki ferðinni,” sagði hann svo. 

Maðurinn um borð velti upp þeirri hugmynd að koma kókaíninu í land með Zodiac bát. Jón Ingi sagðist hafa hlustað á hann og sjálfur stungið upp á að maðurinn færi frá borði, ekki með neitt á sér, og myndi sjá hvað gerðist. „Hugmynd sem ég kom með og hann prófaði þetta,“ sagði Jón Ingi. 

Átti að skipta efnunum

Maðurinn sem tók á móti kókaíninu í landi og var handtekinn með þau sagðist hafa vitað af innflutninginum deginum áður.

Hann viðurkenndi fyrir dómi á mánudag að hafa stundað smásölu fíkniefna. Hann sagðist hins vegar ekki vera eigandi kókaínsins.

„Mitt hlutverk var einungis að nálgast þetta eina og hálfa kíló. Fara með og splitta upp í einingar.“

Maðurinn í héraðsdómi á mánudag.
Maðurinn í héraðsdómi á mánudag. mbl.is/Karítas

Maðurinn sagðist ekkert hafa vitað um efnin, hvernig þau kæmu til landsins eða hversu lengi þau hefðu verið hér.

Þá sagðist hann að hann hefði ekki tekið þátt í innflutninginum ef hann hefði vitað að um væri að ræða meira en eitt og hálft kíló. Honum skildist að hann gæti verið dæmdur til að sinna samfélagsþjónustu ef það væri magnið.

Vantaði peninga

Spurður af hverju hann tók þetta verkefni að sér sagði maðurinn að um græðgi væri að ræða. Hann hefði vantað peninga.

Maðurinn lýsti því fyrir dómi að það hefði verið „þurrkur“ á landinu í einhvern tíma.

Hann sagði innflutninginn ekki vera hluti af neinni skipulagðri brotastarfsemi og þetta ætti einungis að vera „one time thing“.

Því til rökstuðning sagðist hann hafa keypt verkfæri sama dag til þess að brjóta upp pottanna.

Í málsgögnunum er að finna skjáskot sem maðurinn sendi Jóni Inga þar sem hann var búið að setja upp aðstöðu til að brjóta upp pottanna í Grafarholti.

Aðgerð eftir handtökuna

Verjandi mannsins bað hann um að lýsa handtökunni.

Maðurinn sagðist hafa séð „halarófu“ lögreglubíla elta hann að heimili hans í Grafarholti.

Grímuklæddur sérsveitarmaður hafi síðan rifið hann úr bílnum. Hann sagði lögreglumennina hafa verið „nokkuð marga“ og að þeir hafi tekið harkalega á honum. Meðal annars hafi hann fengið högg á höfuðið.

Þá sagði hann lögregluna hafa „mölvað“ upp hurðina hjá móður hans og rústað heimili hennar meðan hún var á Spáni þó hann hafi gefið þeim lykla. Hurðin hafi verið ónýt í langan tíma.

Hann sagði handtökuna hafa „fokkað upp“ hné hans og þá þurfi hann að fara í aðgerð í nóvember útaf áverka á brjóstkassa sem hann hlaut.

Vill lifa heiðarlegu lífi

Maðurinn sagðist ekki geta beðið eftir að ljúka þessum kafla af lífi sínu og segja skilið við þennan hóp fólk.

Hann sagðist hafa kynnst þeim í byrjun árs 2023 eftir að hafa fallið eftir 10 ár af edrúmennsku.

Maðurinn sagðist hafa gengið í gegnum skilnað árið 2022, ætti tvö börn og væri með fulla forsjá á öðru þeirra.

Spurður hvernig hann sæi framtíðina fyrir sér sagðist hann sækjast eftir þessum tíu árum er hann var edrú. Hann vilji lifa góðu og heiðarlegu lífi.

Maðurinn segist vilja lifa heiðarlegu lífi.
Maðurinn segist vilja lifa heiðarlegu lífi. mbl.is/Karítas
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka