Lengra skólaár og hærra hlutfall kennslu meðal hugmynda

Lítið þokast áfram í deilunni og ekki hefur verið boðað …
Lítið þokast áfram í deilunni og ekki hefur verið boðað til nýs samningafundar. mbl.is/Golli

Breyting á vinnufyrirkomulagi kennara, til dæmis með því að auka hlutfall kennslu og lengja skólaárið er eitt af því sem samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga (SÍS) er að reyna að koma inn í samtalið við Kennarasamband Íslands í kjaradeilunni, sem virðist þó ennþá öll í hnút.

Með breyttu vinnufyrirkomulagi væri hægt að auka verðmæti starfsins, spara á einhverjum sviðum og létta á vinnuálagi kennara.

Þetta segir Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar SÍS, í samtali við mbl.is. 

Verkföll hófust í níu skólum í gær og boðað hefur verið til verkfalla í fleiri skólum í nóvember. Þá er viðbúið að enn fleiri skólar bætist í hópinn ef samningar nást ekki fljótlega.

Væri hægt að spara á öðrum sviðum

Vinnufundir voru haldnir í gær og í dag og til stendur að halda þeim áfram á morgun. Ekki hefur enn verið boðað til nýs samningafundar í viðræðunum. Inga segir fólk vera að tala saman þó enn þokist lítið áfram. Hún viðurkennir að hljóðið í henni sé ekki gott.

„Auðvitað erum við að reyna að skapa samtal og þau eru þar líka. Við erum bara að reyna að ná betra samtali. Það er er vinnan og verkefnið núna,“ segir Inga.

Hugmyndir SÍS snúist ekki um að kennarar vinni meira, heldur að hlutfall kennslunnar af vinnutímanum yrði hærra. Ársvinnuframlagið yrði alltaf það sama. Það sé að minnsta kosti ein hugmyndin.

„Við erum að tala um að breyta vinnufyrirkomulaginu. Við sjáum tækifæri til þess að auka verðmæti starfsins. Það eru fleiri atriði sem geta haft í för með sér að starfið verði verðmætara þannig við getum borgað hærri laun fyrir starfið. Og þá getum við sparað á öðrum sviðum,“ segir Inga.

Ætla að „þroska ákveðið mál áfram“ á morgun

Hugmyndir um hvernig megi draga úr vinnuálagi kennara hafi einnig komið fram.
„Af því það er talað mikið um vinnuálag, þá mætti lengja skólaárið. Það er eitt sem mætti gera og minnka þannig vinnuálag á kennara. Mikilli vinnu er þjappað á níu og hálfan mánuð. Þannig það eru allskonar hugmyndir sem hægt er að vinna með ef það er áhugi fyrir því.“

Inga ítrekar að ýmsar hugmyndir hafi komið fram um það hvernig megi auka verðmæti kennarastarfsins.

„Fólk er að reyna að finna grundvöll til samtals.“

En til stendur að halda samtalinu áfram á morgun, að sögn Ingu.

„Við ætlum að hittast á morgun og þroska ákveðið mál áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka