Ólafur E. Jóhannsson
Karl Gauti Hjaltason lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, sem skipar 1. sætið á framboðslista Miðflokksins í Suðurkjördæmi, mun óska eftir leyfi frá störfum til að geta sinnt framboðsmálum af fullum þunga í aðdraganda kosninga til Alþingis.
Þetta staðfestir hann í samtali við Morgunblaðið.
„Ég mun óska eftir leyfi í dag,“ segir hann og býst við að það taki gildi í byrjun nóvember. Það er dómsmálaráðherra sem mun veita honum leyfi frá störfum.
„Ég talaði við þá í ráðuneytinu fyrir fáeinum dögum og það er auðsótt að fá leyfi af þessum ástæðum,“ segir Karl Gauti.
Spurður um hvort hann sé bjartsýnn á gott gengi í kosningunum segist hann vera það, en Miðflokkurinn mældist með hartnær 20% fylgi í Suðurkjördæmi í síðustu könnun Prósents fyrir Morgunblaðið.
„Það er mikil bjartsýni hér í kjördæminu og mikill atgangur, margt ungt fólk er að koma til liðs við flokkinn, þannig að mér líst mjög vel á þetta og umhverfið er allt annað en fyrir þremur árum,“ segir hann.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag