Opið á þremur leikskólum af fjórum

Mjög skert starfsemi er á þeim leikskólum þar sem er …
Mjög skert starfsemi er á þeim leikskólum þar sem er opið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ein deild er opin á þremur leikskólum af þeim fjórum þar sem leikskólakennarar eru í verkfalli. Hægt er að hafa deildirnar opnar þar sem deildarstjórar á þeim eru ófaglærðir og því ekki félagsmenn í Kennarasambandi Íslands (KÍ).

Eini leikskólinn þar sem er alfarið lokað er leikskólinn Drafnarsteinn í Vesturbæ Reykjavíkur, en þar eru allir deildarstjórar félagsmenn í KÍ.

Ófaglærður deildarstjóri í hlutastarfi

Þrátt fyrir að hægt sé að hafa opið á einni deild leikskólanna er starfsemin þar mjög skert. Á leikskólanum Holti í Reykjanesbæ fengu til að mynda aðeins 15 börn af 104 að mæta hluta úr degi.

Þar hefur aðeins verið hægt hafa opið einni deild af sex í gær og í dag, þar sem deildarstjóri í hlutastarfi er ekki í KÍ.

„Deildarstjórinn þar er í hlutastarfi á móti öðrum deildarstjóra með réttindi. Deildin er opin í þann tíma sem hinn ófaglærði starfsmaður er deildarstjóri,“ segir Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir, leikskólastjóri á Holti, í samtali við mbl.is.

Aðspurð hvort það verði þannig áfram meðan á verkfalli stendur, segir Hólmfríður þau aðeins taka einn dag í einu.

„Við viljum reyna að vinna þetta vel. Fara eftir öllum verkfallsreglum og fyrirmælum. Ég á í mjög góðu sambandi við mína yfirmenn og við erum að reyna að gera þetta vel, með hagsmuni allra að leiðarljósi.“

Sex börn fengu að mæta á Sauðárkróki

Á leikskólanum Ársölum á Sauðárkróki var aðeins opið til klukkan 11 í dag og 6 börn fengu að mæta, samkvæmt tölvupósti sem foreldrar fengu frá sveitarfélaginu.

Anna Guðrún Jóhannesdóttir, varaformaður félags grunnskólakennara, sinnir verkfallsvörslu og var stödd fyrir norðan þegar blaðamaður heyrði í henni um hádegið. 

Þegar leikskólinn var heimsóttur í morgun voru tvö börn mætt og tveir starfsmenn. Annar þeirra er deildarstjóri deildarinnar. Aðrir starfsmenn leikskólans, sem ekki eru félagsmenn í KÍ voru einnig mættir til vinnu líkt og í gær, að sögn Önnu Guðrúnar.

Í gær þurftu foreldrar frá að hverfa með börn sín, en póstur hafði borist frá sveitarfélaginu um að opið yrði á leikskólanum þrátt fyrir verkföll og að til stæði að taka á móti þriðjungi barnanna. Þá var áðurnefndur deildarstjóri, sem ekki er félagsmaður í KÍ, hins vegar ekki í vinnu og leit KÍ því á að um verkfallsbrot væri að ræða. Ekkert varð því af opnun í gær.

Þá er ein deild opin á leikskóla Seltjarnarness, samkvæmt frétt Vísis, en ekki náðist í leikskólastjóra við vinnslu fréttarinnar.

Ósammála um að kröfugerð hafi verið lögð fram

Verkföll hófust í samtals níu skólum í gær, en til viðbótar við leikskólana fjóra hófust verkföll í þremur grunnskólum, einum framhaldsskóla og einum tónlistarskóla. Verkföll hefjast í fleiri skólum í nóvember, en alls hafa verið boðuð verkföll í þrettán skólum. 

Þá hefur formaður KÍ sagt að kennarar í fleiri skólum hafi sýnt áhuga á að fara í verkföll og því ekki ólíklegt að boðuð verði verkföll í fleiri skólum, náist samningar ekki á næstunni.

Ekki virðist lausn í sjónmáli í kjaradeilunni. Magnús Þór Jónsson, formaður KÍ, segir kennara vilja fá laun sambærileg þeim sem háskólamenntaðir sérfræðingar á almenna markaðnum hafa og hefur verið talað um rúmlega milljón í því samhengi.

Inga Rún Sigurðardóttir, formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga (SÍS), hefur sagt að slíkar launakröfur séu „þvílíkur ómöguleiki“.

Þá vill hún meina að kennarar hafi enn ekki lagt fram skýra kröfugerð, en Magnús segir það ekki rétt. Kröfur hafi legið fyrir síðan í byrjun þessa árs, sem fela í sér að að efna skuli samkomulag frá árinu 2016 um jöfnun lífeyriskjara. Hefur hann vísað til þess að Félagsdómur hafi verið sammála því að kröfugerðin lægi fyrir.

Ekki hefur enn verið boðað til nýs samningafundar en vinnufundir voru haldnir í gær og í dag.

Magnús Þór Jónsson er formaður KÍ.
Magnús Þór Jónsson er formaður KÍ. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka