Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir að Dagur B. Eggertsson borgarráðsformaður hafi sjálfur óskað eftir „stuðningshlutverki“ þegar hann tók sæti á framboðslista Samfylkingarinnar. Flokkurinn mælist stærstur í skoðanakönnunum og hefur ekki útilokað samstarf með neinum flokkum.
Um helgina vöktu athygli skilaboð sem Kristrún sendi til kjósanda þar sem hún sagði að Dagur yrði ekki ráðherra ef Samfylkingin fengi umboð til að mynda ríkisstjórn, og að það lægi beinast við að strika Dag út í kjörklefanum ef viðkomandi kjósanda hugnaðist hann ekki.
„Það hefur gjarnan verið þannig að oddvitar hafa forgang í ráðherrastól,“ segir Kristrún í samtali við mbl.is. Dagur er ekki í oddvitasæti á lista flokksins, heldur skipar hann 2. sæti í Reykjavíkurkjördæmi norður, þar sem Kristrún skipar 1. sæti.
Kristrún tekur þó fram að flokkurinn sé ekki búinn að ákveða hverjir fengju ráðherrasæti í hugsanlegri ríkisstjórn Samfylkingarinnar.
„Við erum hins vegar ekkert á þeim stað í Samfylkingunni núna að við séum farin að raða niður í ákveðin hlutverk. Við erum fyrst og fremst að biðja um umboð til að mynda ríkisstjórn,“ bætir hún við.
„En Dagur sagði að fyrra bragði að hann væri að koma þar inn sem liðsmaður í stuðningshlurverki og væri ekki að sækjast eftir oddvitahlutverki, sem er þekkt hlutverk sem – ef það gengur vel í kosningum og flokkar enda í ríkisstjórn – leiðir til ráðherrastóls,“ segir Kristrún enn fremur.
„Þannig að þetta er bara í takt við það sem hann hefur sagt sjálfur.“
Spurð hverjir komi þá til greina í ráðherrastóla kveðst hún ekki geta sagt til um það beint en eins og Kristrún benti á fyrr þyki eðlilegt að oddvitar flokka fái forgang í ráðherrastóla. Oddvitar Samfylkingarinnar eru Kristrún, Jóhann Páll Jóhannsson, Alma Möller, Logi Einarsson, Arna Lára Jónsdóttir og Víðir Reynisson.
Þegar litið er á skoðanakannanir í dag er útlit fyrir að Samfylkingin geti myndað þriggja flokka meirihluta með Sjálfstæðisflokknum, Viðreisn eða Miðflokknum. Aðspurð svarar hún ekki beint hvort slíkt samstarf komi til greina.
„Við erum bara á byrjunarstigum í þessari kosningabaráttu. Það er mikið flot á fylginu,“ segir formaðurinn og bætir við að flokkurinn muni láta „málefnin ráða för“.
Eins og er kveðst Kristrún ekki hafa nokkurt draumaríkisstjórnarsamstarf í huga. „Við verðum bara að sjá hvernig þróunin verður í kosningunum,“ segir Kristrún.
Eruð þið búin að útiloka einhverja flokka?
„Við erum ekki búin að útiloka neina flokka og það eru bara málefnin sem ráða för og svo kemur bara í ljós hver vilji kjósenda verður.“