„Undanfarin kvöld hafa rúður verið brotnar í leikskólanum Ösp, lögregla er með málið til rannsóknar og lítur það alvarlegum augum,“ segir Hjördís Rut Sigurjónsdóttir, upplýsingafulltrúi skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, í samtali við mbl.is.
Leitað var til Hjördísar um nánari upplýsingar um skemmdarverkin í kjölfar þess er pistill um málið, undirritaður stjórnendum Aspar, birtist í Facebook-hópi Íbúasamtakanna Betra Breiðholts en Ösp er við Iðufell í Breiðholtinu.
„Sorgarstaða í leikskólanum okkar!“ er þar yfirskrift og í framhaldi greint frá því að undanfarið hafi óþekktir aðilar komið að leikskólanum á kvöldin og brotið þar rúður, síðast í gærkvöldi (þriðjudagskvöld).
„Við viljum biðja um hjálp ykkar,“ segir svo. „Ef þið verðið vör við eitthvað þá endilega hafið samband við lögregluna eða stjórnendur í leikskólanum. Þetta er mjög alvarlegt mál sem veldur miklu tjóni í leikskólanum og er stórhættulegt börnunum okkar,“ rita stjórnendurnir.
Hjördís Rut upplýsingafulltrúi heldur áfram í samtali við mbl.is og lýkur máli sínu með því að unnið sé að því að efla öryggiseftirlit við leikskólann sem þurfi að fá að vera griðastaður fyrir börn og starfsfólk.