Telja upphafsdag smitsins fundinn

Leikskólinn Mánagarður er á stúdentagörðunum við Eggertsgötu en þar kom …
Leikskólinn Mánagarður er á stúdentagörðunum við Eggertsgötu en þar kom upp E. coli-bakteríusýking með 17. október sem líklegan upphafsdag. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

„Eftir ítarlega upplýsingaöflun fulltrúa sóttvarnalæknis og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hjá foreldrum barnanna beinist athyglin að fimmtudeginum 17. október, en þann dag voru í leikskólanum öll þau börn sem veiktust fyrstu dagana,“ segir í fréttatilkynningu frá embætti landlæknis um hópsýkingu af völdum E. coli-bakteríu sem upp kom meðal barna á leikskólanum Mánagarði.

Segir þar enn fremur að líklega sé um matarborið smit að ræða þar sem veikindi barnanna hafi hafist á svipuðum tíma og þau dreifst yfir allar deildir skólans. Því sé ólíklegra að smitið komi úr umhverfi leikskólans eða hafi eingöngu farið barna á milli.

„Þó er ekki hægt að útiloka þær smitleiðir eftir að veikindi byrjuðu og áður en grunur kom upp um hópsýkingu og leikskólanum var lokað,“ segir svo.

Leikskólinn þrifinn hátt og lágt

Rekur tilkynningin svo matseðil fimmtudagsins 17. október og er þar enn fremur greint frá því að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fari með rannsókn á vettvangi og hafi tekið fjölmörg matvælasýni til rannsóknar.

„Jafnframt hafa heilbrigðisfulltrúar farið í eftirlit í leikskólann, farið yfir verklag, metið aðstæður og farið fram á úrbætur eftir tilefni. Eftir að hópsýkingin kom upp hefur leikskólinn verið þrifinn hátt og lágt, auk þess sem leikföng og annar búnaður hefur verið sótthreinsaður. Leikskólinn er enn lokaður og verður ákvörðun um opnun tekin af rekstraraðila í samráði við stýrihóp. Sóttvarnalæknir mun gefa út leiðbeiningar varðandi hvenær börnin geta mætt aftur í skólann.“

Er í framhaldinu fjallað um bakteríuna og mismunandi tegundir hennar og segir þar að E. coli-bakteríur séu hluti af náttúrulegri þarmaflóru manna og dýra og geti borist í vatn, kjöt, grænmeti og önnur matvæli á framleiðslustigi.

STEC-stofnar vandasamir

Segir að baktería sem kallast STEC og á íslensku kallast shigatoxin-myndandi E. coli beri gen sem myndað geti þau eiturefni er valdi veikindunum.  Erfitt geti reynst að finna og rækta upp STEC-stofna í matvælum vegna fjölda mismunandi E. coli-stofna í hverju sýni sem geri það að verkum að torsótt geti verið að hitta á þann stofn sem beri meinvirknigenin og þurfi oft að endurtaka rannsóknir.

„Matvælastofnun greindi frá skimun á tilvist sjúkdómsvaldandi baktería í íslensku kjöti á markaði hérlendis árið 2018. Þar kom fram að STEC-meinvirknigen fundust í tæplega 30% sýna af lambakjöti og 11,5% sýna af nautgripakjöti. Sambærilegar rannsóknir hafa ekki verið gerðar á grænmeti, ávöxtum eða öðrum matvælum hér á landi,“ segir að lokum, en undir tilkynninguna rita sóttvarnalæknir, Matvælastofnun og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert