Íslenskur verksmiðjueigandi í einum þeirra bæja sem varð undir í stórflóðum suður af Valenciuborg skaut hlífiskildi yfir starfsmenn og vegfarendur þegar vatnsbylgja reið yfir bæinn Pai Porta í suðurhluta Spánar rétt eftir kvöldmatarleytið í gær.
Hann segir flóðin hafa riðið yfir á augabragði og fyrir vikið hafi fólk orðið innlyksa og ekki komist leiðar sinnar í nótt. Verksmiðjan er á þremur hæðum og gat fólk því haldið sig frá vatnselgnum sem var um einn og hálfur metri að sögn hans.
Verksmiðjueigandinn er Jóhann Ármann Karlsson, sem búið hefur á svæðinu í um tíu ár ásamt fjölskyldu sinni. „Það var nánast engin rigning í þorpinu en það voru gríðarlegar rigningar innar í landinu og árfarvegirnir höfðu ekki undan. Því flæddi í öllum þessum þorpum á svæðinu,“ segir Jóhann.
„Ég var með tíu menn í vinnu til klukkan 10 í gærkvöldi og það fólk varð bara að sofa í verksmiðjunni því það var eins og hálfs metra djúpt vatn allt í kringum verksmiðjuna. Fyrir utan var fólk búið að flýja upp á bíla og þeim var bjargað inn. Fólk var að festast í bílum og fljóta með bílum um allt. Fyrir utan verksmiðjuna er ein aðalaðkoman að þessum bæ. Mitt fólk var inni í verksmiðjunni og heyrði hróp og köll. Þetta fólk var svo fært inn í verksmiðjuna og var þar í nótt,“ segir Jóhann.
Á meðfylgjandi myndskeiði má sjá manneskju á bílþaki fyrir utan verksmiðjuna.
Sjálfur hafði hann keyrt um þessar sömu götur heim á leið einungis um 30 mínútum áður. Þá var engin rigning. Heimili hans er í nærliggjandi bæ sem liggur hærra en Pai Porta og þar urðu engin flóð.
Hann var hins vegar í samskiptum við starfsfólkið sem eftir var í verksmiðjunni. Tók starfsmaður meðfylgjandi myndskeið.
„Vatnið kom bara eins og veggur eða bylgja niður árfarveginn. Það er ekki eins og vatnið hafi hækkað smátt og smátt. Árfarvegirnir eru mjög stórir og taka mikið vatn en þeir höfðu samt ekki undan. Þetta var í raun flóð af biblíulegum skala,“ segir Jóhann.
Snakk er framleitt í verksmiðjunni sem er fjölskyldufyrirtæki að sögn Jóhanns. Kjallari hennar fylltist af vatni og ljóst að tjón er nokkuð. Eðli málsins samkvæmt veit Jóhann ekki hve mikið það verður þegar uppi er staðið. Sjálfur hefur hann ekki farið að verksmiðjunni að nýju vegna götulokana.
Á meðfylgjandi myndskeiði má sjá vatnsflauminn flæða ofan í kjallara.
„Fólkið sem var þarna í nótt í verksmiðjunni er farið en ástandið er enn þá slæmt og þetta er áfallasvæði. Lögregla kom þeim skilaboðum til fólks að koma sér í burtu því von er á öðru flóði,“ segir Jóhann Ármann. Bætir hann því við að viðbragðsaðilar hafi ekki haft tök á því að hjálpa öllum sem eru í vanda.
Þorpin sem verst hafa orðið úti vegna flóðanna eru á svæði sem nefnist L'Horta Sud sem gæti útlagst sem Suðurslétturnar og er landbúnaðarsvæði. Svæðið er í útjaðri Valenciuborgar en sjálf miðborgin og úthverfi hennar slapp mun betur.
„Í bænum mátti sjá að fólk hafði prílað uppi á þak. Verksmiðjan okkar er á þremur hæðum. Kjallarinn fylltist af vatni en yfirborð vatnsins á jarðhæðinni var um einn og hálfur metri,“ segir Jóhann.
Hann segir að yfirvöld hafi tilkynnt um talsvert mannfall og fyrir um tveimur klukkutímum var mannfall komið upp í fimmtíu manns samkvæmt tilkynningu frá svæðisstjóra L'Horta Sud.