Vildi ekki nafngreina þann sem afhenti honum 16 milljónir

Maðurinn átti að flytja peninganna úr landi. Mynd úr safni.
Maðurinn átti að flytja peninganna úr landi. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tveir af átján sakborningum Sólheimajökulsmálsins sem játað hafa brot sín komu fram fyrir dómi í dag sem vitni. Mál þeirra hafa verið aðskilin stóra málinu þar sem um játningarbrot er að ræða. Þeir vildu þó lítið tjá sig fyrir dóminum.

Þriðji sakborningurinn játaði einnig brot sitt, en hann flutti inn kókaín með skemmtiferðaskipi sem kom til landsins í apríl.

Hann kom fram fyrir dómi í morgun og bar fyrir sig minnisleysi vegna andlegra veikinda.

Þegar hlotið dóm

Annar mannanna er fimmtugur og var ákærður fyrir peningaþvætti, umferðar- og fíkniefnalagabrot.

Hann tók á móti rúmlega 12 milljónum króna í reiðufé af Pétri Þór Elíassyni, annars höfuðpaurs í málinu, á verkstæði hans í Kópavogi í október 2023.

Hann keyrði sviptur ökuréttindum að Álfabakka þar sem lögregla stöðvaði bifreiðina og handtók hann.

Lagt var hald á peningana og 9 stykki af svokölluðum bensó-lyfjum.

Þá fundust tæplega 30 grömm af amfetamíni á heimili hans í apríl á þessu ári.

Maðurinn sagðist hafa þegar verið dæmdur fyrir brotið og neitaði að tjá sig.

Bæði Karl Ingi Vilbergsson saksóknari og dómari bentu honum á vitnaskyldu, þ.e.a.s. að vitni beri að segja satt og rétt frá og draga ekkert undan sem máli skiptir.

Maðurinn ítrekaði að hann ætlaði ekki að tjá sig.

Dæmdur í 75 daga fangelsi

Eini dómur yfir manninum sem hefur verið birtur á vefsíðu Héraðsdóms Reykjavíkur féll í maí á þessu ári.

Var hann þá dæmdur í 75 daga fangelsi fyrir umferðarlaga- og fíkniefnalagabrot. Þá var hann sviptur ökurétti ævilangt.

Í dóminum segir að hann hafi ítrekað ekið sviptur ökurétti og þá fundust nokkur grömm af MDMA í vörslu hans í apríl 2023.

Þrír af 18 sakborningum hafa játað brot sín.
Þrír af 18 sakborningum hafa játað brot sín. mbl.is/Eyþór

Fór með 16 milljónir á Leifsstöð

Hinn maðurinn er á þrítugsaldri og er ákærður fyrir peningaþvætti og fíkniefnalagabrot.

Hann fékk afhentar rúmlega 16 milljónir króna í reiðufé í mars og átti að fara með peningana erlendis. Hann var hins vegar stöðvaður af tollavörðum í Leifsstöð.

Þá fundust rúmlega 15 grömm af kókaíni á heimili ákærða og í bíl hans sem ætlað var til sölu og dreifingar.

Á slæmum stað

„Gerðist hratt,“ sagði maðurinn fyrir dómi og spurði dómari þá hvað gerðist hratt. Maðurinn svaraði hvernig „þetta“ fór og átti þar við peningana sem hann fékk afhenta.

Maðurinn sagðist hafa verið á slæmum stað og í „öðruvísi ástandi“.

Hann játaði að hafa fengið peningana afhenta en vildi ekki svara hver lét hann fá þá.

Svo virtist sem hann treysti sér ekki til að segja nafnið upphátt í dómsal fyrir framan dómara, verjendur og sakborninga málsins.

Vinurinn segist ekki hafa farið með peninga

Karl Ingi spurði hann ítrekað út í nafnið og vísaði í að hann hafi greint frá nafni annars sakbornings í málinu í skýrslutöku hjá lögreglu.

Sá maður, sem er einnig á þrítugsaldri, kom í skýrslutöku fyrr í dag og harðneitaði að hafa látið manninn fá pening.

Hann viðurkenndi að þeir væru vinir og að hann gæti hafa farið til vinarins umræddan dag í mars, en ekki með peninga í neinum poka.

„Erfitt að segja það“

Saksóknarinn spurði meðal annars hvort maðurinn treysti sér til að segja hvað hinn maðurinn héti. „Það er svolítið erfitt að segja það,“ svaraði maðurinn.

„Af hverju er það erfitt?“ spurði Karl Ingi.

Svaraði maðurinn að það væri vegna þess að það hefði ekki verið einn einstaklingur sem lét hann fá peningana.

Karl Ingi spurði af hverju erfitt væri að segja nöfnin og svaraði maðurinn þá að engin sérstök ástæða væri fyrir því.

Skuldað peninga

Maðurinn sagði þó að tveir menn hefðu afhent honum peningana í tösku fyrir utan heimili hans í Vogahverfinu.

Spurður hvort að sakborningurinn, sem á að hafa afhent honum peningana samkvæmt ákæru, hafi komið heim til hans daginn áður en hann fór í Leifsstöð svaraði maðurinn játandi.

Karl Ingi spurði hvað fór þeirra á milli og svaraði maðurinn þá að hann hafi verið í slæmu ástandi og ekki munað hvað þeir töluðu um.

Maðurinn sagðist hafa skuldað peninga, en samkvæmt málsgögnum skuldaði hann 900 þúsund í fíkniefnaskuld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka