Vill vaxtaþak á viðskiptabankana

Arnar Þór Jónsson formaður Lýðræðisflokksins segir vel hægt að reka ríkissjóð réttum megin við núllið. Hallarekstur hins opinbera sé ein meginorsök verðbólgu sem sé viðvarandi hér á landi. Hann segir flokk sinn hins vegar vilja breyta reglum á íslenskum peningamarkaði þar sem vaxtaþaki yrði beitt gegn því sem hann kallar okurlánavexti.

Hærri en á nokkru öðru byggðu bóli

Arnar Þór, sem er gestur Spursmála að þessu sinni, segir ótækt að á Íslandi séu hærri vextir við lýði en á nokkru öðru byggðu bóli í Evrópu að Úkraínu og Rússlandi undanskildum.

„Þegar við skoðum sögulegar heimildir, við þurfum ekki annað en að opna hina helgu bók að við sjáum að vaxtaokur er meira og minna bannað og hefur verið bannað í gegnum söguna.“

Hann segir að vaxtaþak geti virkað vel, þótt margir vari við slíku inngripi á markaðinn.

„Menn segja við mig: ef þú ætlar að setja vaxtaþak á lánastofnanir á Íslandi þá verður kannski peningaþurrð á Íslandi. Ég segi á móti: peningar leita alltaf að vinnu og jafnvel þótt það yrði keyrt niður eitthvert vaxtaþak á Íslandi þá myndu menn samt vilja koma peningunum sínum í vinnu og Ísland er það langt fyrir ofan Evrópuríkin að öðru leyti í …“

Viltu setja vaxtaþak?

„Ég held að það sé ein leiðin sem við ættum sannarlega að skoða.“

Raunverulegt vaxtaokur

Ef þú settir slíka reglu, hvaða þak myndir þú setja í núverandi ástandi þar sem Seðlabankinn er að berjast við ofþenslu?

„Ég get ekki sagt hvað það ætti nákvæmlega að vera. En það blasir við að við búum í rauninni við vaxtaokur við Íslendingar.“

Mér finnst nú ekki alveg sanngjarnt gagnvart kjósendum að gefa alla vega ekki einhverja mynd af því. Eru það tvö eða sjö prósent? Á þessu er eðlismunur.

„Já, ég er sammála. Auðvitað þarf maður að vera raunsær. Ég átta mig á því að við viljum ekki skrúfa fyrir innstreymi fjármagns í íslenskt samfélag …“

Ef það er 6% verðbólga og hámark vaxta er 4% þá er vaxtastigið neikvætt og þá fara allir og taka lán.

„Auðvitað átta ég mig á því sem hægrimaður að þeir sem lána peninga verða að hafa arð af sínum vöxtum en ég er í prinsippinu á móti því að hér viðgangist okurlánastarfsemi.“

Ef við segjum að það sé 6% verðbólga, hvað mættu vextir vera háir í slíku ástandi?

Setji eðlileg mörk

„Auðvitað virðum við samningsfrelsið og ég held að það megi setja eðlileg mörk …“

Nei, það er ekki samningsfrelsi ef þú setur vaxtaþak. Þá ertu að taka fram fyrir hendurnar á mönnum um það hvaða vexti þeir ákvarða.

„Ég myndi auðvitað ekki ætla að vera einráður með það, ég myndi tala við alla sem málið varðar, hagsmunaaðila og svona, en þá má finna hófleg mörk. Þetta er ein leiðin sem við erum að segja að væri hægt að fara,“ segir Arnar Þór.

Viðtalið við Arnar Þór má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér að neðan:

Nýr flokkur Sléttur mánuður er síðan Lýðræðisflokkurinn var stofnaður. Arnar …
Nýr flokkur Sléttur mánuður er síðan Lýðræðisflokkurinn var stofnaður. Arnar Þór er formaður hans. Morgunblaðið/María Matthíasdóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka