Finnbjörn A. Hermannsson, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), gerir enga athugasemd við þá launahækkun sem Kennarasamband Íslands krefst. Samband íslenskra sveitarfélaga áætlar að launahækkunin nemi 49%.
Stærstu aðildarfélögin innan ASÍ skrifuðu undir stöðugleikasamninga til fjögurra ára á almennum vinnumarkaði og við sveitarfélög í vor sem gerðu ráð fyrir 3,5% launahækkun. Spurður hvort áætluð tuga prósenta launahækkun kennara hafi einhver áhrif á þá stöðugleikasamninga svarar Finnbjörn neitandi. „Við bara keyrum okkar stefnu og höfum þannig séð enga skoðun á því hvað aðrir eru gera með sína kjarasamninga,“ segir hann.
Vilhjálmur Birgisson formaður Starfsgreinasambandsins vildi ekki tjá sig um málið þegar Morgunblaðið hafði samband en hann var einnig í broddi breiðfylkingarinnar við gerð stöðugleikasamninganna.
Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir kröfur kennara við Samband íslenskra sveitarfélaga mikil vonbrigði.
„Þessar kröfur sem hafa verið að birtast af hálfu forystu kennara undanfarið eru mikil vonbrigði,“ sagði Sigríður Margrét aðspurð í samtali við mbl.is.
„Við vitum það að undirstaða opinbers rekstrar er verðmætasköpun í atvinnulífinu og það er þess vegna mjög mikilvægt að almenni markaðurinn leiði launaþróunina og kjarasamningar opinberra starfsmanna raski ekki þeirri kjarasátt sem náðist fyrr á árinu,“ sagði Sigríður Margrét.
Hún bætir við að tölurnar sem hafi verið nefndar varðandi launakröfur kennara séu ekki í neinu samhengi við það sem samið var um í almennu kjarasamningunum í byrjun ársins. Ekki sé í boði að víkja frá launastefnunni sem þar var samið um.
Sigríður Margrét nefnir að almennur vinnumarkaður sé í mikilli samkeppni við hið opinbera um starfsfólk og að réttindi opinbers starfsfólks hafi sitt að segja í samanburðinum. Þar sé minni vinnuskylda og meira orlof, meiri veikindaréttur og aukið starfsöryggi, ásamt ríkari uppsagnarvernd.
„Þegar við erum að bera saman launakjör á milli markaða þá verður að kostnaðarmeta þessa þætti,“ sagði hún.