Ekki markmiðið að fara í verkfall

Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélag Íslands, segir afstöðu lækna skýra eftir …
Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélag Íslands, segir afstöðu lækna skýra eftir atkvæðagreiðslu dagsins. Samsett mynd/mbl.is/Sigurður Bogi/Colourbox

„Þetta er mjög skýr afstaða,“ segir formaður Læknafélags Íslands, Steinunn Þórðardóttir, um nýlega atkvæðakosningu innan félagsins sem samþykkt var með afgerandi meirihluta verkfallsaðgerðir.

Á kjörskrá voru 1246 og greiddu 1032 atkvæði eða 82,83% þeirra sem máttu greiða atkvæði.

956 sögðu já eða 92,64%. 52 sögðu nei eða 5,04% og 24 skiluðu auðu eða 2,32%

Vaxandi gremja á undanförnum árum

„Ég bjóst við því að við værum að lesa félagsmenn okkar rétt í því að telja að þetta yrði niðurstaðan. Þetta var allavega það sem að mig grunaði allan tímann út frá stemmingunni í hópnum og svona vaxandi gremju bara á undanförnum árum. Bæði með kjör en líka með aðstæðurnar í heilbrigðiskerfinu,“ segir Steinunn í samtali við mbl.is.

Hún segir atkvæðagreiðsluna því ekki hafa komið á óvart en að það sé þó styrkur í að sjá niðurstöðurnar á svörtu og hvítu.

Samþykkt hefur verið að fyrsta lota verkfalls hefjist 18. nóvember en verða svo einnig verkfallsaðgerðir í desember og svo í janúar 2025.

Mikill vilji frá báðum áttum

Núna eru minna en þrjár vikur í fyrstu lotu, hver eru næstu skref varðandi fundi?

„Það var vinnufundur í dag hjá sáttasemjara og annar er boðaður á mánudaginn. Það er ekki búið að boða neinn stóran samningafund enn þá en það byggir líka svolítið á því hvernig þessi vinna gengur,“ segir formaðurinn og heldur áfram.

„En samtalið er mjög þétt og það er mjög mikill vilji beggja vegna til þess að leysa þetta og við upplifum það áfram eins og við höfum gert undanfarnar vikur.“

Steinunn segir marga óvissuþætti í samningagerðinni og að verið sé að reyna að fækka þeim svo að það sé meiri vissa beggja megin við borðið um hvað ákveðnar breytingar muni þýða. Því sé erfitt að segja til um hvort samningsaðilar séu að færast nær eða fjær hvor öðrum.

„Það er aðeins of snemmt að segja nákvæmlega hvar við erum stödd.“

Ekki markmiðið að fara í verkfall

Segir Steinunn að Læknafélagið hafi nú væntingar til þess að unnið verði mjög þétt á næstu dögum og vikum.

„Að báðir aðilar leggi sitt af mörkum til þess að afstýra verkföllum af því eins og ég segi það er ekki markmiðið hjá okkur, alls ekki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert