Börn og unglingar sem búa við slæma fjárhagsstöðu eru almennt verr stödd á öllum sviðum en jafnaldrar þeirra sem búa við góða fjárhagsstöðu foreldra.
Gríðarlegur munur er á stöðu barnanna, nánast hvað varðar alla þætti; áfengis- og vímuefnaneyslu, ofbeldishegðun, líðan, tengsl við foreldra, bekkjarfélaga og jafnvel tengsl við skóla og kennara.
Þetta kom fram í erindi Sigrúnar Daníelsdóttur, verkefnastjóra geðræktar hjá embætti landlæknis, á málþingi samfélagsnálgunar forvarnarmánaðarins um öryggi og vellíðan barna og ungmenna, sem fór fram í morgun.
„Þetta er að koma upp hjá okkur sem langstærsti þátturinn sem skapar mun á milli barna,“ sagði Sigrún. Kjör foreldranna hafa því bein áhrif á kjör, heilsu og líðan barnanna.
Sigrún birti niðurstöður úr íslensku æskulýðsrannsókninni frá árinu 2023, en þar sést meðal annars að um 40 prósent barna sem búa við slæma fjárhagsstöðu upplifa daglega kvíða og depurð, þau eiga oftar í erfiðari samskiptum við foreldra sína og upplifa sig einnig hafa minni tengsl við kennara sína. Finnst kennararnir síður taka þeim eins og þau eru og upplifa síður að kennurunum þyki annt um þau sem einstaklinga.
Munurinn var á bilinu 20 til 30 prósent ef horft var til barna sem búa við góða fjárhagsstöðu.
„Það er eitthvað við viljum ekki sjá í samfélagi sem kennir sig við jöfnuð. Við viljum að börnunum okkar líði öllum vel í skólanum,“ sagði Sigrún. Benti hún jafnframt á að skólinn væri mikilvægasta samfélagslega jöfnunartækið og þar væri mikilvægt að börnin upplifðu öryggi.
Sigrún vitnaði einnig í rannsókn á félagstengslum íslenskra barna og ungmenna frá árinu 2020.
Þar voru skoðuð tengsl barna frá 6. og upp í 10. bekk við foreldra, skóla og vini. Um þrjú prósent þessara barna voru með slök tengsl á öllum sviðum.
Sigrún bendir á að ef miðað sé við þessa tölu þá sé um að ræða um 150 börn í hverjum árgangi eða um 1.500 börn á grunnskólaaldri í samfélaginu á hverjum tíma. Þó prósentutalan virðist lág þá sé fjöldinn töluverður.
„Þessi börn eru verulega illa stödd hvað varðar félagslega stöðu, heilsu, líðan og framtíðarhorfur.“
Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að eftir því sem félagsleg tengsl voru slök á fleiri sviðum, því meiri áhrif hafði það á heilsu og líðan.
Börn og ungmenni sem höfðu öll tengsl slök voru langlíklegust til að vera einmana, hafa sállíkamleg einkenni, lenda í slagsmálum, leggja í einelti, verða lögð í einelti, drekka áfengi og reykja.
Þegar niðurstöðurnar voru skoðaðar með tilliti til efnahagsstöðu kom í ljós að öll börnin í könnuninni sem bjuggu við slæma fjárhagslega stöðu, höfðu einhver slök tengsl. Ekkert barn sem bjó við slæma fjárhagsstöðu var með tengsl í lagi á öllum sviðum.
Um þriðjungur til helmingur sem barna sem býr við slæma fjárhagslega stöðu er með slök tengsl á öllum sviðum í sínu lífi; við foreldra, skóla og vini, segir Sigrún og vísar í niðurstöðurnar.
„Þetta kallar á að við skoðum hvað ráð höfum við í samfélaginu til að rétta hlut þessara barna. Við tölum um skólann sem jöfnunartæki. Skólinn er okkar samfélagslega tól, okkar stærsta, mikilvægasta og öflugasta samfélagslega tól til að rétta stöðu barna, af því stjórnum ekki því hvað er í gangi á heimilum barna. Við getum auðvitað stutt við með ýmsum hætti og það er mjög mikilvægt, en í skólanum eiga þau samt að fá tækifæri til að jafna stöðuna sína,” segir Sigrún
Í íslensku æskulýðsrannsókninni var ekki samræmi í svörum barnanna og starfsfólks skólanna hvort passað væri upp á að sérhvert barn eða ungmenni myndaði tengsl við að minnsta kosti einn starfsmann sem hann treysti og gæti snúið sér til ef eitthvað kæmi upp á.
Flest starfsfólk leikskólanna svaraði játandi, eða 85 prósent, 80 prósent starfsfólks grunnskólanna og 67 prósent í framhaldsskóla. Um 35 til 50 prósent barnanna svöruðu þessari spurningu játandi.
„Þrátt fyrir okkar góða ásetning fullorðna fólksins, þá þurfum við að gera betur hér. Við þurfum að tryggja það að hvert einasta barn sem er í okkar kerfum sé að mynda tengsl, bæði við sína jafnaldra en ekkert síður fullorðna fólkið.“
Sigrún segir að barn sem upplifir óstöðugleika i sínu lífi þurfi að geta treyst því að þegar það mæti í skólann að þá sé það gripið og upplifi öryggi og vernd. Mikilvægt sé að gera skólanum hátt undir höfði, styðja við hann og efla í sínu hlutverki.
Í ljósi þeirra erfiðu teikna sem eru á lofti, meðal annars þegar kemur að aðgengi að áfengi og í ofbeldismálum, sé mikilvægt að hlusta á börnin og gögnin.
Mikilvægt sé að efla félagstarf barna og ungmenna. Gæta þurfi þess að íþrótta- og tómstundastarf sé ekki bara í boði fyrir sum börn.
„Þannig er staðan í dag og því þurfum við að breyta, ekki seinna en strax. Öll börnin í samfélaginu þurfa að hafa jafnt aðgengi að þessum verndandi þáttum.“