Telur að líklega dragi til tíðinda í lok nóvember

Síðasta eldgosi lauk 5. september.
Síðasta eldgosi lauk 5. september. mbl.is/Árni Sæberg

Þorvaldur Þórðarson eldfjallaprófessor telur líklegt að það dragi til tíðinda á Reykjanesskaganum í lok nóvember með enn einu gosinu við Sundhnúkagígaröðina.

Síðasta eldgosi lauk 5. september og stóð það yfir í tvær vikur. Gosið var það þriðja lengsta af þeim sex gosum sem hafa orðið í Svartsengiskerfinu frá því í desember 2023 en var um leið það kraftmesta.

„Landrisið er búið að vera stöðugt og miðað við rúmmálsbreytingarnar sem hafa orðið á grynnra geymsluhólfinu þá hefur innflæðið úr dýpra geymsluhólfinu upp í það grynnra verið rétt um þrír rúmmetrar á sekúndu. Þá er farið að nálgast lágmarksgildið í uppflæðinu,“ segir Þorvaldur við mbl.is.

Í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands í vikunni sagði að í aðdraganda síðustu tveggja eldgosa hefði skjálftavirkni á svæðinu norðvestan við Grindavík farið vaxandi vikurnar áður en gosin hófust. Talið er þessi skjálftavirkni sé vísbending um að það að þrýstingur í kvikuhólfinu sé farinn að aukast og það það styttist í næsta atburð.

Dregið úr innflæði úr dýpra geymsluhólfi í það grynnra

Þorvaldur segir að það hafi greinilega dregið úr hversu mikið er að flæða úr dýpra geymsluhólfinu upp í það grynnra frá því atburðirnir á Reykjanesskaga hófust í nóvember í fyrra.

„Þetta var í upphafi 9-10 rúmmetrar á sekúndu en núna er þetta komið niður í þrjá. Það er því smátt og smátt að draga úr flæðinu úr dýpra geymsluhólfinu, en hefur haldist nokkuð stöðugt frá því í júní,“ segir Þorvaldur.

„Miðað við þetta innflæði ætti landrisið og rúmmálið að vera orðið svipað og var fyrir síðasta gos á bilinu 25.-30. nóvember. Hvort það dugi til að koma öðru gosi af stað verðum við bara að bíða og sjá, en ég tel líklegra að það komi gos.“

Þorvaldur segir erfitt að segja til um það hvort gosið verði stærra en það síðasta en Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands, sagði við mbl.is á dögunum að næsta gos gæti orðið allt að 30 prósent stærra.

„Það er munur á afli og stærð og það er ekki sama hugtakið. Aflið er mælt með framleiðninni í gosinu og hvað mikið af rúmmetrum af kviku kemur upp á sekúndu,“ segir hann.

Ekki aflmeira en gæti staðið lengur

„Mér þykir langlíklegast að ef það kemur til goss í lok nóvember eða byrjun desember þá muni gosið byrja á svipuðum slóðum og öll hin gosin hafa gert, að undanskildu gosinu 14. janúar. Ég á ekki von á því að gosið sem kemur upp næst verði eitthvað aflmeira heldur en gosin síðan í mars en það gæti staðið yfir í lengri tíma.“

Hann segir að gosið yrði þá með svipaðri framleiðni í byrjun eins og í síðasta gosi, með háum kvikustrókum á stuttri gossprungu sem myndi lengjast, en síðan myndi gosið afmarka sig við ákveðinn hluta á gossprungunni og mynda gíga sem yrðu virkir eitthvað áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert