Uppfærður samningur „sögulegt tækifæri“

Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, Bryndís Haraldsdóttir og Volodimír Selenskí Úkraínuforseti.
Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, Bryndís Haraldsdóttir og Volodimír Selenskí Úkraínuforseti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Norðurlandaráð hefur hvatt norrænu ríkisstjórnirnar til þess að uppfæra Helsingforssamninginn.

Fram kemur í tilkynningu að það sé talið nauðsynlegt til að tryggja að norrænt samstarf geti þróast í takt við tímann og endurspeglað þróunina í norrænu löndunum. Endurnýjunin muni auka vægi og gildi samstarfsins.

Helsingforssamningurinn, sem er frá árinu 1962, er eins konar stjórnarskrá Norðurlandaráðs.

Þinginu lýkur í dag

76. þingi Norðurlandaráðs lýkur hér á landi í dag. Á þinginu lögðu þingmenn Norðurlandaráðs til að ríkisstjórnir Norðurlandanna endurnýi Helsingforssamninginn. Það felur í sér að samningurinn er sendur til umfjöllunar í löndunum og ríkisstjórnirnar svara ráðinu saman í gegnum Norrænu ráðherranefndina.

„Norræna samstarfið þarf að fá „stjórnarskrá“ sem er í takt við tímann og endurspeglar samfélagið sem við lifum í. Það teljum við lykilatriði til að norrænt samstarf geti haldið áfram af krafti,“ segir Bryndís Haraldsdóttir, forseti Norðurlandaráðs, í tilkynningunni.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra ásamt Bryndísi Haraldsdóttur.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra ásamt Bryndísi Haraldsdóttur. mbl.is/Karítas

Í tillögunni segir að þörf sé á skýrara orðalagi um hlutverk hins norræna samstarfs við að gera norrænum gildum og sjónarmiðum hátt undir höfði á vettvangi ESB og EES.

Einnig er lagt til að orðalag um norrænt samstarf við mótun og innleiðingu nýrra reglna verði meira bindandi.

Gerbreytt staða 

„Vinnan að því að endurnýja hina „norrænu stjórnarskrá“ – Helsingforssamninginn – mun gefa norrænu löndunum sögulegt tækifæri til að blása nýju lífi í norræna samstarfið og þróa það til að það nýtist öllum norrænu löndunum og íbúum þeirra. Mikilvæg málefni á borð við loftslagsmál, náttúru og sjálfbærni eru hvergi nefnd þótt til sé kafli í samningnum um umhverfismál. Varnir, viðbúnaður, samfélagsöryggi og stafvæðing eru heldur ekki meðal málaflokka sem um er fjallað í samningnum,“ segir Bryndís einnig í tilkynningunni.

„Staðan í alþjóðamálum hefur gerbreyst frá því að Helsingforssamningurinn var gerður, meðal annars vegna þess að Finnar og Svíar hafa gengið í NATÓ og þar með eru öll norrænu löndin með aðild að bandalaginu. Málfarslega séð er samningurinn einnig úreltur og ekki í samræmi við tungutak nútímans,“ segir Bryndís jafnframt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka