Var að verjast „óvæntri og lífshættulegri árás“

Steinþór fyrir Héraðsdómi í fyrra.
Steinþór fyrir Héraðsdómi í fyrra. mbl.is/Sonja

Landsréttur mat það svo að Steinþór Einarsson, sem Héraðsdómur hafði dæmt í 8 ára fangelsi fyrir manndráp, hefði orðið fyrir ólögmætri árás sem honum hefði verið rétt að verjast eða afstýra.

Þetta kemur fram í dómi Landsréttar sem hefur nú verið birtur.

Ákæru­valdið krafðist þess að átta ára fang­els­is­dóm­ur í mál­inu yrði þyngd­ur, en í dómi héraðsdóms var Steinþór fund­inn sek­ur um að hafa orðið Tóm­asi Waag­fjörð að bana fyr­ir tveim­ur árum með því að stinga hann tvisvar sinn­um í vinstri síðu með hníf.

Forsaga málsins er sú að til átaka kom á milli Tóm­as­ar og Steinþórs er Tóm­as krafðist þess að eig­in­kona sín, sem var æsku­vin­kona Steinþórs, snéri aft­ur á heim­ili þeirra aðfaranótt 3. októ­ber 2022 á Ólafs­firði. Hjón­in höfðu átt í storma­sömu sam­bandi.

Steinþór neitaði að hafa stungið Tóm­as vís­vit­andi með hníf tvisvar. Við aðalmeðferð máls­ins fyr­ir Lands­rétti í byrj­un mánaðar sagði Steinþór að hlut­irn­ir hefðu gerst mjög hratt og það hefði komið hon­um mjög á óvart að Tóm­as hefði látið lífið.

Tómas hefði átt upptökin að átökum

Í dómi Landsréttar kom fram að ekki yrði annað ráðið en að Tómas hefði átt upptökin að átökunum.

Segir enn fremur að ekki yrði önnur ályktun dregin en að um ofsafengna og lífshættulega árás hefði verið að ræða af hálfu Tómasar sem Steinþóri hefði verið rétt að verjast.

Þá var einnig tekið tillit til skýrslu þess er framkvæmdi krufningu Tómasar, auk annarra gagna um stefnu og lögun stungusáranna og þótti á hinn bóginn hafið yfir skynsamlegan vafa að Steinþór hefði náð taki á hnífnum meðan á átökunum stóð og beint honum í síðu A í tvígang.

Segir í dómum að hann hefði með því beitt vörnum sem voru augsýnilega hættulegri en árásin og það tjón, sem af henni mátti vænta, gaf ástæðu til og var því ekki fallist á að 1. mgr. 12. gr. almennra hegningarlaga gæti átt við um atvik málsins.

Þrátt fyrir það var lagt til grundvallar að árásin hefði enn staðið yfir þegar hnífurinn stakkst tvisvar í síðu Tómasar.

Hefði ekki getað fullkomlega gætt sín

Kemur þá fram að þótt leggja yrði til grundvallar að Steinþór hefði gengið lengra í að verjast árásinni en efni stóðu til taldi Landsréttur óhjákvæmilegt að líta til þess að Steinþór „hefði verið að verjast óvæntri og lífshættulegri árás með eggvopni“ og kemur fram að Tómas hafi lagt ítrekað til Steinþórs með hnífnum og náði t.a.m. að stinga hann tvisvar, annars vegar í andlit og hins vegar í læri.

Kemur fram að Landsréttur hafi talið uppfyllt skilyrði 2. mgr. 12. gr. almennra hegningarlaga þar sem miða yrði við að Steinþór hefði verið það skefldur eða forviða er hnífurinn stakkst í síðu Tómasar í tvígang að hann hefði ekki getað fullkomlega gætt sín og var hann því sýknaður um manndráp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert