Rétt rúmlega eitt þúsund læknar hafa greitt atkvæði í kosningu um verkfall Læknafélags Íslands, eða um 80% félagsmanna. Kosningunni lýkur klukkan 16 í dag.
„Þetta er mjög góð þátttaka og mér finnst hún undirstrika áhuga fólks á baráttunni,“ segir Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands, spurð út í stöðu mála.
Greint verður frá niðurstöðu kosningarinnar upp úr klukkan 16 og ef verkfallið verður samþykkt mun Læknafélagið greina frá nánari útfærslu verkfallsaðgerða, þar á meðal hvar og hvenær þær fara fram. Aðgerðirnar munu í fyrsta lagi hefjast 18. nóvember.
Vinnufundur hófst klukkan 13 í dag í kjaradeilunni án aðkomu stóru samninganefndanna, að sögn Steinunnar.
„Það er ekki búið að boða neinn stóran samningafund eins og er en við erum að tala saman samt sem áður, mjög þétt,” bætir hún við en kjaraviðræður hafa staðið yfir hjá ríkissáttasemjara síðan í apríl síðastliðnum.
Ertu vongóð um að deilan leysist áður en til verkfalla kemur?
„Ég ætla að halda áfram að vera vongóð fram á síðasta dag. Það langan engan í aðgerðir af þessu tagi, hvorki okkur né mótaðilanum. Ég vona innilega að hlutirnir fari að skýrast áður en til þess kemur,“ svarar Steinunn.