Skatttekjur innflytjenda duga fyrir beinum og óbeinum útgjöldum hins opinbera sem hægt er að tengja við veru þeirra í landinu. Sýnir tölulegur samanburður að áhrif innflytjenda á fjármál hins opinbera séu jákvæð en þó lítil að umfangi.
Þetta sýnir úttekt Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) í skýrslu frá árinu 2021.
Ísland var ekki hluti af úttektinni en engin ástæða er að ætla annað en að hið sama eigi við hér, að því er fram kemur í svari Þórólfs Matthíassonar, prófessors í hagfræði við Háskóla Íslands, á Vísindavefnum. Fjallar hann þar um áhrif innflytjenda á fjármál hins opinbera.
Spurt var: Hvernig er hægt að meta ávinning og kostnað íbúa aðflutningslands þegar innflytjendur á vinnualdri flytja til landsins?
Samantektin sýnir aftur á móti að tekjurnar duga ekki alltaf til að greiða fyrir hrein almannagæði. Þannig duga skattekjur innflytjenda ekki til að taka fullan þátt í kostnaði við stjórnsýslu og varnir.
Sama á þó við um „innfædda“ þjóðfélagsþegna, þ.e. skatttekjurnar duga fyrir beinum og óbeinum útgjöldum sem hægt er að tengja beint við veru þeirra í landinu, en í nokkrum tilvikum duga þær ekki til að greiða fyrir hrein almannagæði.
Í svarinu segir Þórólfur að ástæðan sé sú að á tímabilinu sem úttektin tekur til hafi hið opinbera verið rekið með halla í mörgum OECD-ríkjanna sem horft var til.
Munurinn á innflytjendum og innfæddum er sá að í flestum tilvikum er meiri „afgangur“ af skatttekjum þeirra síðarnefndu, þegar búið er að greiða fyrir kostnaðinn sem hið opinbera hefur vegna dvalar þeirra.
Í sumum löndum munar miklu á milli en í öðrum löndum er afa lítill munur, til að mynda í Bandaríkjunum og Bretlandi.