Átta ákærð úr sömu fjölskyldu, fjórir hlutu dóm

Fram kemur í dómi héraðsdóms að konan segist ekki lengur …
Fram kemur í dómi héraðsdóms að konan segist ekki lengur vera hrædd við föður sinn eða aðra ættingja. Hún óttast aftur á móti þá menningu sem þau komi úr. Ljósmynd/Colourbox

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt fjóra einstaklinga í hálfs árs skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa brotið gegn konu og dætrum hennar. 

Fram kemur í dómi héraðsdóms, að lögreglustjórinn á Suðurnesjum hafi í maí alls ákært átta einstaklinga sem tengjast fjölskylduböndum fyrir ýmist stórfellt heimilisofbeldi eða minna heimilisofbeldi sem beindist gegn konu úr fjölskyldunni og tveimur dætrum hennar. Fram kemur að fjölskyldan eigi rætur að rekja til Palestínu en hafi búið á Íslandi um nokkurra ára skeið. 

Þá kemur fram, að fjölskylda konunnar hafi verið mjög ósátt við ástarsamband hennar við annan mann og þess krafist að hún myndi slíta sambandinu. Taldi fjölskyldan einnig að hún hefði verið niðurlægð vegna meintra nektarmynda sem ástmaðurinn hafði sent fjölskyldunni, til að sýna þeim að þau væru hjón. Konan tók fram að hún hefði verið í hlýrabol á myndinni og því ekki um nektarmyndir að ræða, að því er segir í dómnum.

Konan óttaðist m.a. það að hún og/eða dætur hennar yrðu fórnarlömb heiðursmorða og að dæturnar yrðu numdar á brott.  

Hótanir, ógnanir og húsbrot

Allir einstaklingarnir átta voru ákærðir fyrir stórfelld brot í nánu sambandi, en til vara fyrir umsáturseinelti, á tímabilinu frá 14. júní 2022 til 17. febrúar 2023. Fólkið var sakað um að hafa endurtekið og á alvarlegan hátt ógnað lífi, heilsu og velferð konunnar með andlegu og líkamlegu ofbeldi í hennar garð, hótunum, ógnunum, húsbrotum, eignaspjöllum, þjófnaði, með því að skapa viðvarandi ógnarástand fyrir hana og með því að hafa reynt að nema dætur hennar á brott.  

Fjórir ákærðu voru sýknaðir af refsiverðri háttsemi.

Börn numin brott um miðja nótt

Hinir fjórir ákærðu voru sýknaðir að mestu leyti, en þrjú þeirra þó sakfelld fyrir eitt brotatilvik gagnvart konunni og dætrum hennar, sem varðaði það að dætur konunnar voru fyrirvaralaust numdar á brott af heimili sínu um nótt. Var þetta gert gegn vilja þeirra og þurftu þær að horfa upp á að móður þeirra var haldið niðri á meðan.

Einn sakborningur, faðir konunnar, var sakfelldur fyrir eitt brotatilvik. Það snýr að því að í febrúar í fyrra greindi hann lögreglu frá því við skýrslutöku að ef sonur hans, sem er einn ákærðu í málinu, hefði myrt systur sína þá hefði það verið í lagi. Hún ætti skilið refsingu í formi þess að vera lamin og fætur hennar og hendur brotnar. Faðirinn greindi einnig frá því að ef hann og synir hans væru „í einhverju arabalandi“ væru þeir löngu búnir að slátra konunni. 

Í dómi héraðsdóms segir að þessi ummæli beri öll merki heiðurstengds ofbeldis, þ.e. að konan hafi vegið að heiðri fjölskyldunnar, valdið henni skömm með sambandinu við manninn. 

Konunni voru dæmdar 750.000 króna miskabætur og dætrunum 500.000 króna miskabætur.

Sakarkostnaður var að mestu leyti felldur á ríkissjóð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert