Ekki lengur hefðbundin meðferðardeild á Stuðlum

Faðir drengs sem hefur verið vistaður á Stuðlum þurfti að …
Faðir drengs sem hefur verið vistaður á Stuðlum þurfti að sækja drenginn í dag. mbl.is/Karítas

Meðferðardeild Stuðla verður breytt í úrræði fyrir þyngri mál, gæsluvarðhald og afplánun fyrir börn sem hlotið hafa dóma. Vinna við breytingarnar er þegar hafin og verið er að rýma til fyrir þeim skjólstæðingum. 

Ekkert hefðbundið meðferðarúrræði verður því í boði þar til nýtt meðferðarheimili verður opnað í Mosfellsbæ síðar á þessu ári.

Einhver þeirra barna sem hafa verið á meðferðardeildinni fara heim án þess að annað úrræði standi þeim til boða. 

Þetta staðfestir Funi Sigurðsson, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs barna- og fjölskyldustofu og starfandi forstöðumaður Stuðla, í samtali við mbl.is. 

Hann segir að flýta hafi þurft breytingunum vegna brunans sem varð í október þegar álma fyrir neyðarvistun gjöreyðilagðist. Í kjölfarið varð að stúka af rými fyrir neyðarvistun á meðferðardeildinni og plássum þar fækkað í fjögur. Ekki sé hægt að blanda of ólíkum málum saman, því hafi orðið að forgangsraða og koma upp nýrri deild á Stuðlum.

Þurfti að sækja dreng úr meðferð í dag

Faðir drengs sem vistaður hefur verið á Stuðlum síðustu vikurnar þurfti að sækja drenginn í dag og fara með hann heim þar sem önnur úrræði eru ekki í boði. 

Drengurinn hefur í raun lokið hefðbundinni meðferð á Stuðlum en faðirinn segir að með miklum þrýstingi hafi honum tekist að framlengja meðferðina um tvær vikur. Þá liggi fyrir umsókn um tveggja mánaða neyðarúrræði, sem væri þá viðbótarmeðferð þar til langtímaúrræði fæst. Eins og staðan er í dag lítur hins vegar ekki út fyrir að af þeirri meðferð verði.

Hefðbundin meðferðardeild verður opnuð í Skálatúni í Mosfellsbæ fyrir áramót, ef allt gengur að óskum. En það gengur nú undir heitinu Farsældartún.

Ekki er komin nákvæm dagsetning á opnunina en búast má við að það verði ekki fyrr en eftir einhverjar vikur þar sem ekki hefur verið gengið frá mannaráðningum. Húsnæðið er hins vegar tilbúið.

Faðirinn veit ekki hvort syni hans muni bjóðast úrræði í Farsældartúni eða hvort það muni yfir höfuð henta.

17 ára piltur lést í brunanum á Stuðlum í október.
17 ára piltur lést í brunanum á Stuðlum í október. mbl.is/Ólafur Árdal

Getur ekki stöðvað drenginn í að fara

Hann segir helgina framundan mjög tvísýna hjá drengnum enda sé hann á slæmum stað og erfitt sé að stöðva hann í að fara að heiman.

Eina úrræðið fyrir foreldra í þeirri stöðu, ef börn skila sér ekki aftur heim, er að hringja í 112, láta leita að börnunum og koma þeim svo í neyðarvistun, sem enn er til staðar á Stuðlum.

Faðirinn upplifir að verið sé að ýta vandamálinu frá fyrir kosningar. Þegar unnið sé með börn og unglinga skipti hver dagur máli og allt rof á meðferð geti haft slæmar afleiðingar.

Þá gagnrýnir hann einnig fyrirkomulagið á opna meðferðarúrræðinu á Stuðlum. Börn strjúki ítrekað þaðan og mörg haldi áfram neyslunni í meðferðinni. Hann segir hugmyndafræðina henta þeim börnum sem aðeins hafa misstigið sig en börn sem komin eru viðvarandi neyslu og  með alvarlegan fíknivanda þurfi lokaðra úrræði.

Nauðbeygð í þennan fasa

Funi segir það ekki óskastöðu að þurfa að hraða framkvæmdum með þessum hætti. Alltaf hafi staðið til að Farsældartún yrði opnað uppúr áramótum og starfsemi Stuðla hefði væntanlega haldist óbreytt fram að því, ef ekki hefði verið fyrir brunann. Hann vill þó ekki meina að verið sé að loka neinu úrræði.

„Við erum í fasanum sem við vorum að einhverju leyti nauðbeygð að fara í út af brunanum. Við þurftum að fara hraðar en við hefðum kosið og hefðum ekki gert það svona hratt ef bruninn hefði ekki orðið, að breyta meðferðardeildinni uppi á Stuðlum og að opna hefðbundna meðferðardeild í Mosfellsbæ á Farsældartúni. Við þurftum að flýta þeim fasa, við erum ekki að loka einu eða neinu,“ útskýrir hann.

Funi segir að húsnæðið í Farsældartúni, sé tilbúið og að búið sé að auglýsa eftir starfsfólki. Allri vinnu við undirbúning verði flýtt svo starfsemi geti hafist þar sem fyrst. 

„Ég er að gera mitt besta að opna það og koma því í gagnið eins hratt og hugsast getur.“

Funi Sigurðsson, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs barna- og fjölskyldustofu og starfandi forstöðurmaður …
Funi Sigurðsson, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs barna- og fjölskyldustofu og starfandi forstöðurmaður Stuðla. mbl.is/Karítas

„Við höfum ekkert vald, ekkert val, ekki neitt“

Hann segir því mjög gróft að segja að verið sé að loka einhverju úrræði. Plássum á meðferðardeildinni hafi fækkað í kjölfar brunans og að nýta verði þau fyrir skjólstæðinga með mjög mikinn vanda.

„Við þurftum að fækka plássunum niður í fjögur og við erum með viðfangsefni sem geta ekki verið með öðrum börnum, út frá stöðu þeirra. Við getum ekki blandað hverju sem er saman og sum verkefni getum við ekki gert neitt við. Við höfum ekkert vald, ekkert val, ekki neitt, þau eru bara hjá okkur. Þetta litast af því. Þess vegna urðum við að forgangsraða að koma upp þessari nýju deild á Stuðlum.”

Neyðarvistun nýtt í millitíðinni

Fjögur börn hafa verið á meðferðardeildinni frá því að starfsemi hófst aftur á Stuðlum eftir brunann og munu einhver þeirra fara heim í dag. Funi segir einhver vera að ljúka meðferð á Stuðlum en þau hafi þá náð hámarkstíma þar, eða 12 vikum.

Vandamálið er hins vegar að ekkert úrræði er í boði fyrir drengi sem þurfa á langtímameðferð að halda í kjölfar meðferðar á Stuðlum. Ef meðferð á Stuðlum skilar ekki árangri er sótt um langtímameðferð en slíkt úrræði var í boði á meðferðarheimilinu Lækjarbakka á Rangárvöllum. Því var hins vegar lokað í vor þegar upp kom mygla í húsnæðinu. Einnig kom upp mygla í því húsnæði sem leigt var í staðinn undir starfsemina. 

Nú bendir þó allt til þess að hægt verði að landa húsnæði á Suðurlandi undir starfsemina og Funi bindur vonir við að hægt verði að koma því í gagnið sem allra fyrst.

„Í millitíðinni er það neyðarvistun sem er nýtt. Barnavernd nýtir neyðarvistun ef barn er stjórnlaust eða þarf að stoppa það af. Hún er opin í þeirri mynd sem við erum komin með hana. Það er það sem gerist, alveg eins og þegar barn er á bið og allt er fullt þá er barnaverndin með sín inngrip.“

Funi tekur jafnframt fram að það sé alltaf einhver vinna í gangi og að ýmislegt sé gert til að reyna að mæta þeim börnum sem eru í hvað mestum vanda, þó úrræðin séu ekki til. Allt sé gert til að reyna að koma þeim í skjól.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert