Fjögurra manna fjölskylda var flutt á bráðamóttöku Landspítalans til skoðunar eftir að eldur kviknaði í íbúð í fjölbýlishúsi í efri byggðum Kópavogs í nótt.
Að sögn Lofts Þórs Einarssonar, varðstjóra hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, barst útkallið klukkan 3.20 í nótt. Þegar slökkviliðið kom á staðinn hafði fjölskyldan, tvö börn og tveir fullorðnir, náð að koma sér sjálf út úr íbúðinni.
Sex íbúðir eru í fjölbýlishúsinu og var það rýmt á meðan slökkvistarf stóð yfir. Greiðlega gekk að slökkva eldinn og reykræsta. Fjölskyldan sem var í íbúðinni bar sig vel, að sögn Lofts Þórs.
Íbúðin er óíbúðarhæf eftir eldsvoðann. Öðrum íbúum fjölbýlishússins var hleypt inn í sínar íbúðir eftir að slökkvistarfi lauk um hálffimmleytið.
Lögreglan hefur tekið við vettvangnum og sér hún um að rannsaka eldsupptök.