Funda vegna kjaradeilu í dag

Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands.
Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands. mbl.is/Sigurður Bogi

Samninganefndir Kennarasambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga munu hittast á fundi hjá ríkissáttasemjara klukkan 13 í dag en verkföll kennara í níu skólum hófust á þriðjudaginn.

Lítið hefur þokast í kjaradeilunni og hafa samninganefndir deiluaðila ekki fundað saman síðustu daga heldur hafa þær verið með vinnufundi í hvoru lagi fyrir sig. Krafa kennara er að launakjör verið sambærileg launakjörum sérfræðinga á almennum markaði.

„Það er verið að reyna að finna nýja nálgun og aðferðarfræði til að leysa ákveðna þætti í málinu og það stendur til að við hittumst eftir hádegi,“ segir Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, við mbl.is.

Magnús segir að mikið beri á milli í deilunni en á fundinum í dag eigi að reyna finna leiðir til að byggja einhverjar brýr eins og hann orðar það.

„Við getum vonandi fundið eitthvað sem við erum sammála um og ef það tekst þá er vonandi grundvöllur fyrir því að við getum komist lengra í öðrum þáttum líka,“ segir Magnús Þór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert