Kanna vanhæfi lögreglustjórans vegna banaslyss

Ríkissaksóknari metur meint vanhæfi lögreglustjórans á Suðurnesjum til að rannsaka …
Ríkissaksóknari metur meint vanhæfi lögreglustjórans á Suðurnesjum til að rannsaka banaslys sem varð í Grindavík 10. janúar. Samsetta mynd/mbl.is/Eggert

Ríkissaksóknari er með til skoðunar erindi sem víkur að meintu vanhæfi embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum til þess að rannsaka banaslys er varð í Grindavík 10. janúar.

Þar lést Lúðvík Pétursson, en hann hvarf í Grindavík 10. janúar þegar hann var að vinna við að fylla sprungur fyrir Náttúruhamfaratryggingu Íslands.

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, staðfestir að erindið hafi borist.

„Það er erindi sem liggur hjá ríkissaksóknara, þar sem dregið er í efa hæfi lögreglustjórans til að rannsaka þetta mál. En sú niðurstaða liggur ekki fyrir,“ segir Úlfar.

Að sögn Úlfars er erindið tilkomið frá tveimur einstaklingum sem sæta rannsókn vegna vinnuslyssins. Hann bætir því við að það sé mat lögreglustjórans að embættið sé ekki vanhæft til þess að fara með rannsókn á slysinu.

Sigríður Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari, bætir því við að erindið hafi borist frá tveimur lögmönnum „f.h. hönd tveggja aðila sem hafa annars vegar réttarstöðu sakbornings og hins vegar vitnis við rannsóknina.“

Hefur áður sagt sig frá máli vegna vanhæfis 

„Rannsókn vinnuslysa er lögum samkvæmt á forræði lögreglu en stundum er það þannig að það reynir á hæfi lögreglu til að rannsaka mál. Ég hef sjálfur reynslu af því að lýsa mig vanhæfan til þess að koma að rannsókn máls. En lögreglustjórinn á Suðurnesjum telur sig ekki vanhæfa til þess að rannsaka þetta hörmulega vinnuslys,“ segir Úlfar.

Óháð rannsókn 

Meint vanhæfi víkur að því að aðkoma lögreglustjórans á Suðurnesjum sé ein þeirra stofnana sem beri að rannsaka í málinu. Verk­fræðistof­an Efla hafði um­sjón með verk­inu, sem var unnið að beiðni Nátt­úru­ham­fara­trygg­inga Íslands, NTÍ. Þá komu almannavarnir og björgunarsveitir að málinu einnig.

Vinnueftirlitið hefur þegar skilað skýrslu um málið. Fram hefur komið í fjölmiðlum að fjölskylda Lúðvíks Péturssonar hefur verið áfjáð um að óháð rannsókn fari fram á andláti hans. Þá hefur komið fram að bróðir Lúðvíks, Elías Pétursson, hefur fengið áheyrn ráðamanna vegna málsins. 

Elías segir í samtali við mbl.is að erindið komi ekki frá fjölskyldunni.  

Fréttin hefur verið uppfærð eftir að svar frá ríkissaksóknara barst. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert