Svandís Svavarsdóttir, formaður VG, segir að þau vandamál sem komið hafi upp í nágrannaríkjunum í tengslum við hælisleitendur séu komin til vegna skorts á inngildingu.
Þetta kemur fram í nýju og ítarlegu viðtali við hana á vettvangi Spursmála.
Þar bendir hún á að Sjálfstæðisflokkurinn hafi lagt höfuðáherslu á uppsetningu svokallaðra lokaðra búsetuúrræða fyrir fólk sem bíður efnislegrar meðferðar á hælisumsókn sinni. Kallar hún slíkar búðir „varðhaldsbúðir.“ Segir hún að það áherslumál Sjálfstæðisflokksins hafi meðal annars orðið til þess að sprengja ríkisstjórnina um miðjan október.
Þegar þáttarstjórnandi spyr hana hvort hún telji að landamæri Íslands séu trygg, í ljósi andstöðu VG við búsetuúrræðin varpar hún spurningunni til baka.
Þá er hún aftur spurð út í mál sem tengist hælisleitanda sem enn dvelur hér á landi eftir að haf verið synjað um alþjóðlega vernd á liðnu ári. Hann heitir Abd al-Rahman al-Zaq og hefur bæði veitt Stöð 2 og Heimildinni viðtöl vegna þeirrar stöðu sem hann er kominn í hér á landi.
Í Spursmálum er í fyrsta sinn birt mynd af al-Zaq þar sem hann sést fremstur í flokki í líkfylgd hryðjuverkaleiðtogans Bahaa Abu el-Atta sem var leiðtogi Islamic Jihad, hryðjuverkasamtakanna á Gasasvæðinu. Hann féll í loftárás í nóvember 2019.
Er Svandís spurð hvort hún telji að sú staðreynd að menn með tengsl við slík samtök stiki göturnar á Íslandi og á framfæri íslenskra stjórnvalda, sé til marks um að landamærin séu trygg svarar hún:
„Við verðum að horfast í augu við það að löndin í kringum okkur sem lenda í vandræðum er vegna þess að inngildinguna hefur skort. Það hefur fyrst og síðast snúist um það. Þá erum við að tala um tungumál, félagslega aðlögun, að börnin geti verið í íþróttum og félagsstarfi og svo framvegis.“
Trúir þú því að þessir menn sem þú sérð hér á þessum myndum að þeir séu að fara að aðlagast okkar samfélagi og taka upp okkar gildi?
„Ég trúi því í alvörunni að það sé mjög varhugavert að upphefja þannig umræðu að þú ákveðir það að fólk með tiltekinn hörundslit, eða af tilteknum trúarbrögðum eða af tilteknum bakgrunni sé í sjálfu sér ógn við samfélagið. Það heitir rasismi. Það er það sem það heitir.“
Ertu að saka mig um rasisma?
„Nei. Ég er að segja að það heitir rasismi ef þú tekur tiltekna hópa út frá trúarbrögðum, uppruna eða litarafti og hengir á þá að þau séu hættulegri fyrir samfélagið. Það heitir rasismi.“
Ert þú í rónni með það, SVandís, að menn með tengsl við Islamic Jihad, einhver ógnvænlegastu hryðjuverkasamtök í heimi stiki hérna göturnar meðal barnanna okkar?
„Ég er aldrei í rónni með það að alþjóðleg glæpastarfsemi eigi hér inn greiða leið enda höfum við í VG tekið þátt í breytingum á lögreglulögum og svo framvegis til að stemma stigu við því og bæta samstarf lögreglunnar á alþjóðlegum vettvangi.“
Þú ert á móti lokuðum búsetuúrræðum til að koma þessum mönnum úr landi. Vegna þess að þú vilt inngildingu.
„Ég er á móti því að koma upp varðhaldsbúðum fyrir fólk á flótta.“
Viðtalið við Svandísi Svavarsdóttur má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér að neðan: