Lögreglan á Hverfisgötu var kölluð til vegna fjársvika þar sem tveir einstaklingar gátu ekki greitt fyrir leigubíl. Í ljós kom að þeir voru báðir ofurölvi og voru þeir fluttir á lögreglustöð.
Lögreglan sem sinnir verkefnum í Kópavogi og Breiðholti var kölluð til vegna þjófnaðar úr verslun. Málið var leyst á vettvangi með vettvangsskýrslu, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til klukkan 5 í morgun.
Þegar dagbókin var rituð gistu fjórir í fangageymslu lögreglu. Alls eru 111 mál bókuð í kerfum lögreglu á tímabilinu.
Lögreglan á Vínlandsleið sinnti ýmsum umferðarmálum, m.a. vegna aksturs gegn rauðu ljósi og notkun farsíma við akstur. Annar maður var handtekinn af lögreglunni á Hverfisgötu fyrir að tala í síma við akstur og fyrir að aka án réttinda.
Lögreglan í Hafnarfirði og Garðabæ stöðvaði ökumann grunaðan um akstur undir áhrifum fíkniefna og áfengis. Annar ökumaður var stöðvaður grunaður um akstur án réttinda.