Hæstiréttur samþykkir beiðni um áfrýjun í kynferðisbrotamáli

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Odd

Hæstirétt­ur hef­ur samþykkt beiðni manns um að áfrýja dómi Lands­rétt­ar, sem féll í júní, þar sem maður­inn var sak­felld­ur fyr­ir kyn­ferðis­brot gegn barni. 

Áður hafði maður­inn verið sýknaður í héraði. 

Fram kem­ur í ákvörðun Hæsta­rétt­ar, að ákæru­valdið hafi lagst gegn beiðninni. 

Ákærður fyr­ir brot gegn stjúp­dótt­ur sinni

Maður­inn var ákærður fyr­ir kyn­ferðis­brot gegn barni, dótt­ur þáver­andi sam­býl­is­konu sinn­ar, og stór­fellt brot í nánu sam­bandi, með því að hafa á tíma­bil­inu 2016 til 2019, mis­notað frek­lega yf­ir­burðastöðu sína gagn­vart brotaþola, traust henn­ar og trúnað sem stjúp­faðir og á al­var­leg­an hátt ógnað heilsu og vel­ferð henn­ar með því að hafa í ótil­greind­an fjölda skipta með ólög­mætri nauðung haft við hana önn­ur kyn­ferðismök en sam­ræði auk þess að sýna henni klám­mynd­ir og taka mynd af kyn­fær­um henn­ar. 

Með dómi héraðsdóms var maður­inn sýknaður af þeim brot­um sem hon­um voru gef­in að sök en með dómi Lands­rétt­ar var hann sak­felld­ur og hann dæmd­ur í fang­elsi í þrjú ár og sex mánuði.

Framb­urður stúlk­unn­ar tal­inn afar trú­verðugur

Lands­rétt­ur tók fram að framb­urður stúlk­unn­ar hefði frá upp­hafi verið skýr, stöðugur og án mót­sagna um þau atriði sem skiptu máli við úr­lausn máls­ins. Fengi framb­urður henn­ar stoð í framb­urði móður henn­ar og vin­kvenna. Var framb­urður stúlk­unn­ar tal­inn afar trú­verðugur.

Þá fengi framb­urður manns­ins tak­markaða stoð í framb­urði vitna og gögn­um máls­ins sem rýrði trú­verðug­leika hans og þar með sönn­un­ar­gildi. Taldi Lands­rétt­ur því ekki óvar­legt að leggja framb­urð stúlk­unn­ar til grund­vall­ar sak­fell­ing­ar þrátt fyr­ir ein­dregna neit­un manns­ins.

Við ákvörðun refs­ing­ar var litið þess að maður­inn hefði ekki áður hlotið refsi­dóm auk þess sem drátt­ur hefði orðið á rann­sókn máls­ins. Hins veg­ar var litið til þess að hann hefði nýtt sér yf­ir­burðastöðu gagn­vart brotaþola sem var á barns­aldri og mis­notað sem stjúp­faðir traust henn­ar og trúnað um þriggja ára skeið.

Úrslit máls­ins hafi for­dæm­is­gildi

Í beiðninni vísaði maður­inn til loka­málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga um meðferð saka­mála sem fjall­ar um áfrýj­un til Hæsta­rétt­ar. Þar seg­ir:

„Hafi ákærði verið sýknaður af ákæru­efni í héraðsdómi en sak­felld­ur fyr­ir Lands­rétti skal þó verða við ósk ákærða, eða ákæru­valds­ins hon­um til hags­bóta, um leyfi til áfrýj­un­ar nema Hæstirétt­ur telji ljóst að áfrýj­un muni ekki verða til þess að breyta dómi Lands­rétt­ar.“

Hann tel­ur jafn­framt að úr­slit máls­ins kunni að hafa for­dæm­is­gildi um hvort Lands­rétt­ur geti not­ast við það sönn­un­ar­mat og þá sönn­un­araðferð sem beitt hafi verið. Álita­efni máls­ins lúti að því grund­vall­ar­atriði rétt­ar­rík­is­ins að ekki megi dæma menn og refsa nema lög­full sönn­un telj­ist fram kom­in sem ekki verði ve­fengd með skyn­sam­leg­um rök­um.

Í niður­stöðu Lands­rétt­ar um sönn­un hafi ekki verið gætt þeirr­ar hlut­lægni sem réttar­fars­regl­ur geri ráð fyr­ir. Dóm­ur Lands­rétt­ar sé því ber­sýni­lega rang­ur efn­is­lega. Þá fel­ist í niður­stöðu Lands­rétt­ar frá­vik frá viður­kennd­um sönn­un­ar­regl­um. Loks varði málið gríðarlega mik­il­væga hags­muni leyf­is­beiðanda og grund­vall­ar­mann­rétt­indi um að vera ekki sak­laus dæmd­ur sek­ur. 

Beiðnin samþykkt

Hæstirétt­ur seg­ir að sam­kvæmt 4. málslið 4. mgr. 215. gr. laga um meðferð saka­mála skuli verða við ósk ákærðs manns, sem sýknaður hafi verið af ákæru­efni í héraðsdómi en sak­felld­ur fyr­ir Lands­rétti, um leyfi til áfrýj­un­ar nema Hæstirétt­ur telji ljóst að áfrýj­un muni ekki verða til þess að breyta dómi Lands­rétt­ar.

„Þar sem slíku verður ekki slegið föstu verður beiðnin samþykkt,“ seg­ir ákvörðun Hæsta­rétt­ar. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert