Hæstiréttur samþykkir beiðni um áfrýjun í kynferðisbrotamáli

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Odd

Hæstiréttur hefur samþykkt beiðni manns um að áfrýja dómi Landsréttar, sem féll í júní, þar sem maðurinn var sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn barni. 

Áður hafði maðurinn verið sýknaður í héraði. 

Fram kemur í ákvörðun Hæstaréttar, að ákæruvaldið hafi lagst gegn beiðninni. 

Ákærður fyrir brot gegn stjúpdóttur sinni

Maðurinn var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn barni, dóttur þáverandi sambýliskonu sinnar, og stórfellt brot í nánu sambandi, með því að hafa á tímabilinu 2016 til 2019, misnotað freklega yfirburðastöðu sína gagnvart brotaþola, traust hennar og trúnað sem stjúpfaðir og á alvarlegan hátt ógnað heilsu og velferð hennar með því að hafa í ótilgreindan fjölda skipta með ólögmætri nauðung haft við hana önnur kynferðismök en samræði auk þess að sýna henni klámmyndir og taka mynd af kynfærum hennar. 

Með dómi héraðsdóms var maðurinn sýknaður af þeim brotum sem honum voru gefin að sök en með dómi Landsréttar var hann sakfelldur og hann dæmdur í fangelsi í þrjú ár og sex mánuði.

Framburður stúlkunnar talinn afar trúverðugur

Landsréttur tók fram að framburður stúlkunnar hefði frá upphafi verið skýr, stöðugur og án mótsagna um þau atriði sem skiptu máli við úrlausn málsins. Fengi framburður hennar stoð í framburði móður hennar og vinkvenna. Var framburður stúlkunnar talinn afar trúverðugur.

Þá fengi framburður mannsins takmarkaða stoð í framburði vitna og gögnum málsins sem rýrði trúverðugleika hans og þar með sönnunargildi. Taldi Landsréttur því ekki óvarlegt að leggja framburð stúlkunnar til grundvallar sakfellingar þrátt fyrir eindregna neitun mannsins.

Við ákvörðun refsingar var litið þess að maðurinn hefði ekki áður hlotið refsidóm auk þess sem dráttur hefði orðið á rannsókn málsins. Hins vegar var litið til þess að hann hefði nýtt sér yfirburðastöðu gagnvart brotaþola sem var á barnsaldri og misnotað sem stjúpfaðir traust hennar og trúnað um þriggja ára skeið.

Úrslit málsins hafi fordæmisgildi

Í beiðninni vísaði maðurinn til lokamálsliðar 4. mgr. 215. gr. laga um meðferð sakamála sem fjallar um áfrýjun til Hæstaréttar. Þar segir:

„Hafi ákærði verið sýknaður af ákæruefni í héraðsdómi en sakfelldur fyrir Landsrétti skal þó verða við ósk ákærða, eða ákæruvaldsins honum til hagsbóta, um leyfi til áfrýjunar nema Hæstiréttur telji ljóst að áfrýjun muni ekki verða til þess að breyta dómi Landsréttar.“

Hann telur jafnframt að úrslit málsins kunni að hafa fordæmisgildi um hvort Landsréttur geti notast við það sönnunarmat og þá sönnunaraðferð sem beitt hafi verið. Álitaefni málsins lúti að því grundvallaratriði réttarríkisins að ekki megi dæma menn og refsa nema lögfull sönnun teljist fram komin sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum.

Í niðurstöðu Landsréttar um sönnun hafi ekki verið gætt þeirrar hlutlægni sem réttarfarsreglur geri ráð fyrir. Dómur Landsréttar sé því bersýnilega rangur efnislega. Þá felist í niðurstöðu Landsréttar frávik frá viðurkenndum sönnunarreglum. Loks varði málið gríðarlega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda og grundvallarmannréttindi um að vera ekki saklaus dæmdur sekur. 

Beiðnin samþykkt

Hæstiréttur segir að samkvæmt 4. málslið 4. mgr. 215. gr. laga um meðferð sakamála skuli verða við ósk ákærðs manns, sem sýknaður hafi verið af ákæruefni í héraðsdómi en sakfelldur fyrir Landsrétti, um leyfi til áfrýjunar nema Hæstiréttur telji ljóst að áfrýjun muni ekki verða til þess að breyta dómi Landsréttar.

„Þar sem slíku verður ekki slegið föstu verður beiðnin samþykkt,“ segir ákvörðun Hæstaréttar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka