Samtökin '78 kæra Pál Vilhjálmsson

Páll Vilhjálmsson, fyrrverandi kennari, hefur verið kærður fyrir hatursorðræðu gegn …
Páll Vilhjálmsson, fyrrverandi kennari, hefur verið kærður fyrir hatursorðræðu gegn Samtökunum '78. Samsett mynd

Páll Vilhjálmsson, fyrrverandi kennari, hefur verið kærður fyrir hatursorðræðu gegn Samtökunum '78. 

Frá þessu greinir Páll á bloggsíðu sinni. Er Páll ákærður fyrir tvær efnisgreinar sem hann birti á bloggi sínu 13. september 2023.

„Kennsluefnið tæling“ 

Ummælin eru eftirfarandi: 

„Samtökin 78 eru regnhlífarsamtök og lífsskoðunarfélag fullorðinna sem áhugasamir eru um klám, kynlíf, kynjaveröld og tælingu barna.“

og

„Kennsluefnið er tæling dulbúin sem upplýsingar. Meðfædd blygðunarsemi barna er skipulega brotin niður. Börn eru gerð móttækileg fyrir þátttöku í kynlífi og það jafnvel ofbeldiskynlífi - BDSM. Börn eru gerð efins um eigin sjálfsmynd og talin trú um að þau séu mögulega fædd í röngu kyni. Ringluð börn og óörugg eru síður í stakk búin að veita viðnám fullorðnum með eitthvað misjafnt í huga. Út á það gengur tælingin.“

Ekki fyrsta ákæra Páls

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Páll þarf að mæta í dómsal vegna ummæla á bloggi sínu, en hann blaðamennirnir Þórður Snær Júlíusson, Arnar Þór Ingólfsson og Aðalsteinn Kjartansson kærðu hann allir fyrir skrif hans. Páll var sýknaður í Landsrétti í máli Þórðar og Arnars, en þeir ætluðu að sækja um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar. Ummæli Páls um Aðalstein voru dæmd dauð og ómerk í héraði, en Páll hefur áfrýjað þeim dómi til Landsréttar.

Ummæli Páls sem er ákært fyrir að þessu sinni lúta að pistli hans í tengslum við samfélagsumræðu sem var uppi í fyrrahaust um hinseginfræðslu Samtakanna '78, þar sem mikils ruglings gætti um efni fræðslunnar og efni kynfræðslu á vegum Heilsugæslunnar – en efni þeirra er ólíkt.

Engin hótun, hæðni né rógburður

Páll gefur ekki mikið fyrir kæruna og segir lögregluna éta það upp eftir formanni samtakanna, Álfi Birki Bjarnasyni, að ummælin falli undir hatursorðræðu.

Ekkert sé talað um hatur í hegningarlagagreininni 233. gr. a. að sögn Páls, hatursorðræða sé orð upp úr bókum aktívista sem kenni skoðanaandstæðinga um haturshug. Þess að auki sé engin hótun höfð frammi, engin hæðni né rógur að sögn Páls.

„Með ákærunni hlutast lögreglan til um opinbera umræðu frjálsra borgara um samfélagsleg málefni. Lögreglan tekur að sér í verktöku fyrir Samtökin '78 að þagga niður í þeim sem andmæla lífsskoðunarfélaginu og sértrúarboðskap þeirra í leik- og grunnskólum,“ segir Páll í færslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert