Hressleikarnir í Líkamsræktinni Hress í Hafnarfirði verða haldnir á morgun í fimmtánda sinn. Linda Hilmarsdóttir, eigandi Hress, segir þau alltaf finna eina eða fleiri fjölskyldur til að styrkja.
„Við köllum þetta skyndihjálp fyrir fólk sem á við tímabundinn vanda að stríða. Við höfum getað safnað dágóðum upphæðum handa fólki í neyð og margar hafnfirskar fjölskyldur hafa notið góðs af styrkjunum í gegnum árin,“ segir hún, en 220 manns taka þátt í leikjunum.
Hvaða fjölskylda fær styrk í ár?
„Ég fór í þetta sinn út fyrir Hafnarfjörðinn og í ár erum við að styrkja unga fjölskylda frá Ísafirði, parið Ívar Breka Helgason og Guðnýju Ásu Bjarnadóttur sem eiga lítinn dreng, Maron Dag, tíu mánaða. Hann fæddist með vöðva- og taugahrörnunarsjúkdóm og er hann fyrsta barnið á Íslandi með þennan sjúkdóm sem nýtur góðs af lyfjum sem geta hjálpað og stöðvað framgang sjúkdómsins,“ segir Linda.
„Hann er að fara í genameðferð til Svíþjóðar í næsta mánuði sem mun vonandi létta honum lífið. Foreldrarnir eru aðeins um tvítugt og hafa þurft að flytja frá Ísafirði og öllu sínu baklandi þar, en þau þurfa að vera í Reykjavík nálægt heilbrigðisþjónustu.“
Hægt er að styrkja ungu fjölskylduna á söfnunarreikningi Hressleikanna: 135-05-71304, kt. 540497-2149. Einnig er hægt að kaupa happdrættismiða á hress.is.